frá Vísi.is
Einar Bárðarson, umboðsmaður Íslands, og Magnús Scheving, forstjóri Latabæjar, eru samkvæmt heimildum Fréttablaðsins á leiðinni til Los Angeles í lok mánaðarins þar sem þeir hyggjast funda með forsvarsmönnum Walt Disney fyrirtækisins um málefni Nylon-flokksins. Magnús hefur undanfarið verið Einari innan handar við markaðssetningu hljómsveitarinnar vestanhafs.

Eins og Fréttablaðið hefur greint frá er Disney-risinn áhugasamur um að fá stúlkurnar til liðs við sig og hefur það meðal annars verið nefnt að stúlkurnar komi fram í High School Musical 3. Fyrri tvær myndirnar hafa notið gríðarlegra vinsælda þar vestra og ætti að reynast ágætis stökkpallur fyrir þær Nylon-stúlkur í Bandaríkjunum. Einar vildi ekki tjá sig um málið þegar Fréttablaðið leitaði eftir því og var þögull sem gröfin.
Nylon-flokkurinn hefur annars látið lítið fyrir sér fara eftir að Emilía Björk sagði skilið við sveitina og þær urðu tríó.

Til stóð að framleiddur yrði raunveruleikaþáttur um leitina að næstu Nylon-stúlkunni en horfið var frá þeirri hugmynd þegar stúlkurnar lýstu því yfir að þær kynnu vel við sig þrjár. Síðan tóku þær upp lagið Britney með Sniglabandinu sem slegið hefur í gegn á Rás 2 og í kjölfarið skal látið sverfa til stáls. Safnplata með öllum bestu lögum sveitarinnar er í smíðum og stúlkurnar eru á leið í upptökuver til að taka upp tvö ný lög undir stjórn Þorvaldar Bjarna Þorvaldssonar. „Best of"-platan er væntanlega í jólaflóðið og er jafnframt reiknað með að henni fylgi öll myndbönd sveitarinnar.





Þar að auki hafa stúlkurnar verið önnum kafnar í öðrum störfum, Steinunn Camilla rekur sem kunnugt er Loftkastalann ásamt unnusta sínum Sigurði Kaiser, Alma er að skrifa bók um reynslu Freyju Haraldsdóttur og Klara Ósk hefur verið að hanna og sauma tískufatnað sem hefur selst eins og heitar lummur. Nylon ku hins vegar eiga hug þeirra allra og því styttist í að flokkurinn láti á sér kræla á ný.