Fjölmiðlafulltrúi poppprinsessunnar Britnrey Spears hefur vísað á bug staðhæfingum yfirvalda í Namibíu um að fulltrúi Spears hafi rætt við ferðamálaráðherra landsins og lýst áhuga Spears á að fæða annað barn sitt í Namibíu. Þetta kemur fram á fréttavef Ananova.

Talsmaður Namibíustjórnar hefur viðurkennt að hugsanlega hafi verið um gabb að ræða og segir símasamband hafa verið mjög slæmt. Áður hafði Leon Jooste, ferðamálaráðherra Namibíu, greint frá því að fulltrúi Spears hafi hringt í sig og lýst hrifningu stjörnunnar á því svigrúmi sem kvikmyndaleikararnir Angelina Jolie og Brad Pitt nutu, er þau dvöldu í landinu fyrir skömmu. Þá sagði hann fulltrúann hafa lýst áhuga Spears á að feta í fótspor Jolie og fæða barn sitt í landinu.