Stærsta og virtasta sjónvarps- og kvikmyndaverðlaunahátíð í heimi, The Golden Globe, verður haldin í Los Angeles í kvöld.
Það eru samtök erlendra blaða­manna í Los Angeles sem standa fyrir hátíðinni og verðlauna það frambærilegasta í heimi sjónvarps og kvikmynda á árinu 2005. Verðlaunin eru nú afhent í 63. skiptið og fer athöfnin fram á Beverly Hilton hótelinu og verður sjónvarpað beint til yfir 150 landa.

Sir Anthony Hopkins veitir viðtöku sérstökum heiðursverðlaunum kennd við Cecil B. DeMille sem samtök erlendra blaðamanna afhenda árlega listamanni fyrir framúrskarandi framlag til skemmt­anaiðnaðarins.
Á meðal þeirra sem munu afhenda verðlaun, skemmta eða koma fram á hátíðinni í einum tilgangi eða öðrum eru stjörnur á borð við Jessicu Alba, Eric Bana, Drew Barrymore, Mariuh Carey, Catherine Deneuve, Leonardo DiCaprio, Clint Eastwood og Harrison Ford.

Ólíkt því sem var hér á árum áður þá hafa flestir hinna tilnefndu sjónvarpsþátta nú þegar verið teknir til sýninga hér á landi. Af þeim þáttum sem sýndir eru á íslenskum sjónvarpsstöðvum hljóta þættir og sjónvarpsmyndir á Stöð 2 samanlagt 26 tilnefningar, þættir og sjónvarpsmyndir á RÚV ellefu tilnefningar, þættir á Sirkus fimm tilnefningar og þættir á Skjá einum fjórar tilnefningar.

Hátíðin verður sýnd í beinni útsendingu á Stöð 2, sem og aðdragandinn að hátíðinni, sem eru svipmyndir og viðtöl við skærustu stjörnurnar á rauða dreglinum. Bæði eru veitt verðlaun fyrir afrek í sjónvarpi og kvikmyndum á Golden Globe-verðlaunahátíðinni.

(visir.is)