Unga og ríka fólkið Ég var að horfa á ansi spes þátt sem fjallaði um unga og ríka fólkið í Stokkhólmi og þessa sérstöku menningu sem skapast á meðal þeirra.

Það er svo mikið af óskráðum reglum, t.d. hvernig þú klæðir þig, hvernig þú kemur fram og hvernig þú hegðar þér. Það má t.d. ekki tala um peninga; það er álitið gróft. Ef þú átt “gamla” peninga þá máttu alveg spandera fyrir framan alla, en það þykir ekki flott að vera að spandera mjög sýnilega peningum ef þú ert nýríkur; þá ertu að sýnast. Það má ekki tala við fjölmiðla, en það er aftur á móti flott ef það birtist mynd af þér í fjölmiðlunum, t.d. tímaritum á borð við Séð og Heyrt, en það er gróft ef maður tjáir sig við þá. Það er flott að vera af aðalsætt, og því nær kóngafólkinu maður er því flottari þykir maður. Ef maður þekkir prinsessurnar er maður sérstaklega kúl.

Á djamminu eru líka ákveðnar reglur. Þegar maður kaupir áfengi er trikkið að kaupa alltaf heilflöskur. Ekki drykki því það sýnir ákveðna stöðu að hafa efni á að kaupa heilflösku; oftast vodka, romm eða kampavín. Þetta færðu svo í ísfötu með glösum og rörum og öllu sem þarf til að blanda í glas.

Þessir krakkar hafa langflestir alist upp í ríkum fjölskyldum, eru svona á aldrinum 19-24 ára og djamma feitt. Lífið snýst um að djamma, kaupa föt, kaupa bíla, djamma meira… jú og mennta sig í fínum skólum. Þetta er fólk sem kaupir sér einar buxur á rúmlega 100 þús kall. Þetta er fólk sem planar aldrei utanlandsferð; það bara skreppur til Grikklands ef það langar til þess og allar svona ferðir eiga helst að gerast óundirbúið, það er trikkið sko.

Virkaði samt ósköp almennilegt fólk á mig, ætli maður hefði ekki sjálfur lifað svona ef maður hefði haft peninginn til þess?

En þessir “brats” eins og þeir eru oft uppnefndir eru sko í allt öðrum klassa en “þotuliðið” á Íslandi. Allavegana þegar maður horfði á þennan þátt þá fannst manni Séð og Heyrt liðið á Íslandi vera alveg svakalega mikið “wannabees”. Ísland hefur ekki svona rosalega stéttaskiptingu. Þessir krakkar sem var fjallað um í þættinum mynduðu rosalega lokaðan hóp með sína spes menningu og þetta er hópur sem mjög erfitt er að komast inn í.

En flestir þessara krakka taka bara svona djammtímabil á meðan þau eru ung. Upp úr 24-25 ára verða þeir að taka sig á til að verða ekki fjölskyldunni til skammar (þá eru þeir ekki lengur nógu ungir til að leyfast að djamma svona mikið), fá sér virðingarverða vinnu, giftast einhverjum viðeigandi og festa ráð sitt.

Greinilega mjög fastgrónar og íhaldssamar reglur hjá þessu fólki.
Kveðja,