Bandaríska söngkonan Lisa Lopes lést í bílslysi í Honduras í gær þar sem hún var í leyfi. Lopes, sem var 31 árs var félagi í söngtríóinu TLC sem kom mörgum lögum á vinsældalista og vann Grammy-verðlaun í Bandaríkjunum. TLC var að vinna að nýrri plötu sem átti að koma út í sumar.

Meðal laga sem TLC gerði vinsæl eru Waterfall, No Scrubs og Unpretty. Í hljómsveitinni voru einnig Tionne Watkins og Rozonda Thomas.

TLC naut mikilla vinsælda eftir að fyrsta plata flokksins kom út árið 1992 en ýmis vandamál komu síðan upp, bæði fjárhagsleg og persónuleg. Hljómsveitin var lýst gjaldþrota fyrir nokkrum árum og var hroðvirknislegum hljómplötusamningum einkum kennt um. Watkins hefur átt við veikindi að stríða og rifrildi voru tíð milli söngkvennanna þriggja. En í nýlegu viðtali við AP vísaði Watkins því þó á bug að þær væru að slíta samstarfinu.

Lopes mun nýlega hafa gert samning um sólóplötu og ætlaði að gefa hana út undir dulnefni. Hún aðstoðaði einnig við að koma sönghópnum Blaque á laggirnar en Blaque gerði m.a. lagið Bring It Home To Me vinsælt.

tekið af mbl.is