Ég ákvað að setja þetta viðtal við persónurnar frægu úr Harry Potter, Daniel Radcliffe, Emmu watson og Rubert Grint.
Daniel Radcliffe (Harry Potter)
Svipað og Mark Hamill gerði árið 1977 birtist Daníel Radcliffe fram á sjónarsviðið sem kornungur leikari með heilmikla byrði. Daníel var valinn úr hópi þúsunda vongóðra leikenda til að leika aðalhlutverkið í myndinni um Harry Potter og viskusteininn sem gerð er eftir samnefndri sögu J.K. Rowling.
Með stuttan feril að baki sem aukaleikari í “Klæðskeranum frá Panama” skýst Daníel upp á stjörnuhimininn í Hollywood sem nýstirni. En hann verður eflaust á himni um langan tíma því hann er orðinn holdgervingur uppáhalds galdradrengsins frá Hogwartskóla.
Þegar Harry Potter kemur til Hogwartskóla þekkja allir nafn hans en enginn veit nokkuð um hann. Aðspurður að því hvort hið sama gildi um hann sjálfan svarar Daníel: „Ég held að allir finni samkennd með Harry á einn eða annan hátt. Ég finn samkennd með Harry á ýmsan hátt en ekki þennan. Ég er trygglyndur, mér finnst gaman að vera innan um fullt af fólki en mér finnst líka gott að vera aleinn. Ég er forvitinn, ég óttast ekki að svara fyrir mig og segja sannfæringu mína.“
Þegar hann fékk að vita að hann hefði verið valinn til að leika aðalhlutverkið varð Radcliffe orðlaus. „Ég grét. Ég var svo hamingjusamur, það var stórkostlegt. Engin orð geta lýst því hvernig mér leið. Ég var inni á baðherbergi á efri hæðinni. Ég heyrði símann hringja niðri og pabbi fór niður til að svara. Ég var eiginlega viss um að þetta væri framleiðandinn en ég hélt að símtalið væri til að segja mér að ég hefði ekki verið valinn. En þá kom pabbi upp og sagði mér fréttirnar og ég sat bara eins og klessa í smátíma. Svo vaknaði ég klukkan tvö um nóttina og hélt að mig hefði verið að dreyma.”
Daníel Radcliffe þekkti vel til Harry Potter bókanna. „Ég las fyrstu bókina þegar ég var átta eða níu ára. Ég hafði eiginlega aldrei verið hrifinn af bókum því mér fannst erfitt að sitja kyrr og einbeita mér að bók. Vinir mínir voru brjálaðir í bækurnar. Ég hafði gaman af þeim en ég var ekki með þær á heilanum. En svo fékk ég hlutverkið og eftir það var ég fallinn fyrir Harry.“
Eins og yfirleitt gerist við myndatökur fer leikari í gegnum súrt og sætt. Daníel fór ekki varhluta af því en segir að lífsreynslan hafi að mestu verið jákvæð, sérstaklega samstarfið við Chris Columbus. „Það allra besta var að vinna með Chris. Hann hefur góð áhrif á fólk, hann er stórkostlegur og rosalega fyndinn. Ég er búinn að læra mikið af honum. Ekki bara um kvikmyndagerð heldur líka að fást við lífið og tilveruna. Ég veit ekki hvort hann viti hversu mikið hann hefur kennt mér.”
Og hvað með hið súra? „Ef ég yrði að nefna eitthvað þá eru það eiginhandaráritanirnar. Ekki það að gefa þær, heldur er nafnið mitt svo langt. Ég þarf að reyna að finna upp styttri áritun.“ Nú skrifar hann „Dan R.”
Ekki þarf að taka það fram að Daníel gaf tugi eigihandaráritana á frumsýningunni í Lundúnum í lok október. Þegar hann sá myndina varð Daníel aftur tilfinningasamur. „Ég var virkilega, virkilega ánægður. Ég þoli ekki að sjá sjálfan mig. En ég gat samt notið þess að sjá myndina vegna leikstjórnarinnar, og auðvitað sögunnar og handritsins, og sérstaklega hinna leikaranna. Allt þetta varð til þess að ég gat hallað mér aftur og notið hennar eins og ég væri ekki þarna. Og ég fór aftur að gráta.“ En áður en nokkur nær að leggja fram aðra spurningu kallar Daníel: ”Ég er samt enginn aumingi! EKKI PRENTA ÞETTA!“
Næstu árin mun Daníel þurfa að fást við frægðina. Hann hefur samþykkt að leika í að minnsta kosti einni mynd í viðbót, ”Harry Potter og leyniklefanum,“ en tökur eru þegar hafnar á þeirri mynd. Aðspurður að því hvort myndin hafi fengið meiri athygli í Lundúnum en í Bandaríkjunum segir Daníel: „Hér er allt miklu umsvifameira. Ég fór í Empire State Building í fyrradag og þar var strákur fyrir framan okkur, ég veit ekki hvað hann var gamall. Hann þekkti mig en var ekki viss hvaðan. Hann starði bara stöðugt á mig en tókst ekki að koma mér fyrir sig. Ég nýt þessa, kennararnir mínir segja að ég hafi alltaf verið athyglissjúkur.”
Hann talar lágt og feimnislega en Daníel Radcliffe mun komast í raðir þekktra Hollywood-leikara þrátt fyrir það. Eins og við munum greinilega eftir Mark Hamill í hlutverki Loga geimgengils og Michael Keaton sem Batman, þá verður Daníel Radcliffe ávallt í huga okkar litli galdradrengurinn sem gegnir nafninu Harry Potter.
Emma Watson (Hermione Granger) og Rubert Grint (Ron Weasly)
Þegar Rupert Grint og Emma Watson ganga inn í pressuherbergið í New York beinast augu allra blaðamannanna niður á við, þar sem tvær af aðalstjörnunum úr „Harry Potter og viskusteininum“ eru innan við 160 cm á hæð. Óþarfi er að taka fram að orka þeirra og áhugi á myndinni gerir þau hærri nokkrum öðrum í Hollywood.
Hin 11 ára gamla Emma Watson skýst upp á stjörnuhimininn í fyrsta leikhlutverki sínu sem Hermione Granger, vinkona Harry Potter og Ron Weasley í Hogwarts galdraskólanum. Hermione er sennilega sú skrautlegasta af þeim, því hún er stjórnsöm og stærilát, og er um leið „nördinn” í hópnum.
Aðspurð að því hvort hún líkist Hermione að þessu leyti hlær Emma við og segir einfaldlega: „Spyrjið bróður minn að því!“ Þegar hún er spurð um skólamálin segir Emma með hógværð: „Umm . . . nei. Mér finnst ekki gaman að læra. Mér finnst gaman í skólanum en ég er ekki með námið á heilanum, það er ólíkt með okkur.”
Hinn 13 ára gamli Rupert Grint þekkir trúnaðarvin Harrys, Ron Weasley, mjög vel. Hann er Ron Weasley að eigin sögn: „Nú, þegar ég var að lesa bækurnar, þá fann ég alltaf samkennd með Ron því við erum báðir rauðhærðir, báðir sjúkir í sælgæti, báðir hræddir við köngulær og við eigum báðir fullt af systkinum.“
Á þessum unga aldri er sennilega stórkostleg upplifun að sjá sjálfan sig á breiðtjaldinu. „Ég verð að viðurkenna að það var hálf skelfilegt að sjá sjálfan mig svona risastóran á tjaldinu,” segir Rupert.
Um þessa fyrstu reynslu sína segir Emma: „Í fyrsta skipti sem ég sá mig sagði ég eiginlega ‘Guð minn góður’ og mér leið undarlega í nokkrar sekúndur því það er svo einkennilegt að sjá sig á skjánum. Og svo í annað skiptið sem ég sá það fannst mér það bara gaman. Í þriðja skiptið fór ég að taka eftir því hvernig farið var að þessu og ég skemmti mér virkilega vel.“
Bæði Rupert og Emma hafa fengið sinn skammt af Harry-Potter-frægðinni. Þau voru sjálf í raun aðdáendur bókanna áður en byrjað var að huga að gerð myndarinnar. „Jahá, ég var einn mesti aðdáandi Harry Potter áður en ég vissi að gerð yrði bíómynd,” segir Rupert.
„Ég var hálfnuð með þriðju bókina þegar ég fór í prufutöku og lauk við þá fjórðu áður en ég fékk að vita að ég hreppti hnossið, svo ég var rosalegur Harry Potter aðdáandi,“ segir Emma.
Hver er ástæðan fyrir vinsældum Harrys hjá ungum og öldnum? „Umm, ég hugsa að það sé vegna þess að bækurnar eru fyrir alla aldursflokka,” segir Emma. „Ég hef séð jafn marga fullorðna lesa Harry eins og börn og bækurnar eru eins konar blanda af fyndni, ævintýrum, og geta látið mann fara að gráta. J. K. Rowling lýsir öllu svo vel að manni finnst eins og maður þekki persónurnar út í gegn. Ég hugsa að bækurnar séu jafn vinsælar í Bretlandi eins og í Bandaríkjunum. Ekki bara þar, heldur um allan heim.“
Chris Columbus leikstýrði myndinni en hann hefur leikstýrt ótal barna- og fjölskyldumnyndum, t.d. „Home Alone,” „Stepmom,“ og „Bicentennial Man.” Emma segir: „Hann er svo ‘kúl’ leikstjóri, svo almennilegur. Ég hef ekki unnið með öðrum leikstjórum en ég er viss um að hann er einna bestur (hún hlær). Hann sagði kannski hvernig sena ætti að vera og spurði svo ‘Hvernig vilt þú hafa þetta?’. Hann var aldrei stjórnsamur og hann sagði okkur ekki hvað við ættum að gera eða segja eða hvernig við ættum að leika. Hann er frábær leikstjóri.“
Nú er farið að líða á daginn og þótt krakkarnir hafi verið í viðtölum síðan um morguninn gefa þau sér samt tíma til að vera börn. Aðspurð að kostunum við að taka þátt í myndinni segir Emma: „Þeir eru sennilega að við fórum að sjá svo marga skemmtilega staði, og hittum svo margt nýtt fólk, og það var æðislegt að leika með góðum leikurum eins og Maggie Smith, Robbie Coltrane, Zoe Wanaker og Julie Walters, og þetta var bara hreint frábær hópur.”
Rupert: „Fyrir mig var aðalkosturinn allt nammið.“
Emma ranghvolfir augunum: „Hérna flyt ég langa og tilfinningasama ræðu og hann segir bara ‘nammi’.”
Þessi tilsvör ásamt öðrum sýna að krakkarnir eru enn ærslafull. Aðspurð um hvaða galdramátt þau vildu helst hafa frá Hogwartskóla og af hverju, svarar Emma: „Ég vildi geta gert mig ósýnilega svo ég geti farið á myndir sem eru bannaðar innan sextán!“
Rupert er á sama máli en markmiðið er annað: „Jahá, ég vildi vera ósýnilegur til þess að geta læðst út þegar ég þarf að sitja eftir í skolanum.”
Veru þeirra í Hogwartskóla er síður en svo lokið: bæði hafa samþykkt að leika í a.m.k. einni mynd í viðbót, „Harry Potter og leyniklefanum.“ Emma segir að Rupert og Daníel séu báðir byrjaðir að leika í myndinni en hún byrjar sjálf í desember.
„Ójá, þetta verður þrumugott,” segir Rupert. „Ég hlakka til að fá að hósta upp sniglum!“
Sólin er sest í New York borg og bæði börnin eru auðsjáanlega þreytt. Emma tekur upp kínamatsprjóninn sinn og fiktar við hann en Rupert lætur sig síga enn neðar í stólinn sinn. Hvernig hefur það verið að svara endalaust sömu spruningunum, æ ofan í æ, frá alls konar blaðamönnum?
Emma er fljót til svars: „Það er það besta við þá! Þeir spyrja allir sömu spurninganna og maður getur alltaf gefið sömu svörin! Maður þarf ekki einu sinni að hugsa, maður getur bara haldið áfram eins og rispuð grammófónplata, svona LALALALA . . .”
Fréttamennirnir við borðið skella allir upp úr. Þegar þessar tvær rísandi stórstjörnur standa upp og yfirgefa herbergið fer orkan út með þeim. Þau eru aðdáunarverð, þau eru yndisleg, og sannarlega einir bestu leikararnir sem hægt er að spjalla við. En ein staðreynd stendur upp úr: þau eru börn. Og þau verða á breiðtjaldinu í mörg, mörg ár í viðbót.