Justin Timberlake er fæddur í Memphis í Tennessee fylki í Bandaríkjunum árið 1981. Mamma hans heitir Lynn Harless og pabbi hans heitir Randy Timberlake. Mamma hans rekur framkvæmdafyrirtækið Just-In Time, svo ekki er erfitt að get sér til hvaðan Justin Timberlake fékk nafnið sitt. Justin átti tvíburasystur sem dó nokkrum mínútum eftir fæðingu. Timberlake er fæddur dansari og söngvari og er búinn að vera að dansa og syngja síðan hann byrjaði að ganga. Hann vann sínu allra fyrstu keppni mjög ungur. Það var keppnin ,,Hver getur dansað líkast strákunum í New Kids on the block” og þessi sigur hans benti til þess að hann væri fullkominn sem meðlimur í strákahljómsveit. Justin kom fyrst fram í bandarísku sjónvarpi aðeins 11 ára gamall í stjörnuleitarþættinum ,,Star search” en þrátt fyrir góða frammistöðu og mikla hæfileika vann hann ekki í keppninni. Framundan hjá Justin var því bara ógrynni af áheyrnarprófum. Stóra tækifærið hans kom svo loksins þegar hann fékk hlutverk í Nýja Mikka Músar klúbbnum (The New Mickey Mouse club) en þar kynntist hann Britney Spears, Christinu Aguilera, og framtíðarfélaga sínum úr ‘NSYNC honum JC Chasez. Chris nokkur Kirkpatrick vildi stofna strákahljómsveit svo hann hafði samband við kunningja sinn Justin Timberlake sem hann hafði hitt í hinum og þessum áheyrnarprófum. Ekkert varð þó úr því alveg strax. Það var ekki fyrr en þegar Justin og JC hættu í Mikka músar klúbbnum og fluttu til Orlando að þeir félagar ákváðu, eftir að hafa eitt kvöld hitt gaur að nafni Joey Fatone, að þeir væru tilbúnir að stofna strákahljómsveit og við bættist fimmti félaginn, hann Jason. Mamma Justins fann upp á nafninu ‘NSYNC en það er nafn sem er búið til úr fyrsta staf í nafni hvers meðlims hljómsveitarinnar (hvernig sem hún fékk það út). Hinn lítt þekkti Jason gerði þau miklu mistök að hætta í hljómsveitinni og söngþjálfari Justins stakk upp á að þeir réðu Lance Bass í staðinn. Þessir fimm strákar mynduðu svo ‘NSYNC, eina frægustu strákahljómsveit síðari hluta tíunda áratugarins. Þeir áttu mikilli velgengni að fagna og gáfu út röð af smáskífum og plötum sem komust á toppinn. Justin var, jafnframt því að vera sá yngsti í bandinu, líka sá vinsælasti og eftirsóttasti. Vinsældir hans voru að stórum hluta vegna þess að hann átti í ástarsambandi við poppdrottninguna Britney Spears. Það má því með góðri samvisku segja að hann eigi fyrrverandi kærustu sinni margt að þakka. Samband þeirra var mikið á forsíðum blaðanna og voru þau elt af blaðamönnum hvert sem þau fóru. Justin og Britney reyndu að halda á lofti sakleysislegri ímynd með því að segjast ekki enn hafa sofið saman. Þessu héldu þau fram þrátt fyrir að vitað var að þau lokuðu sig af í hótelherbergjum heilu og hálfu dagana. Að því kom samt að þau hættu saman. Vegna þessarar gríðarlegu fjölmiðlaathygli voru sambandsslit þeirra á frekar opinberum vettvangi sem gerði þetta allt saman enn erfiðara fyrir þau. Justin tók sig þó fljótt saman í andlitinu og hóf að skipuleggja sólóferil sinn. Hann kom sér í samband við framleiðslurisana the Neptunes og Timbaland og vinna hófst að fyrstu sólóplötunni hans Justins. Hann tók virkan þátt í að semja mörg lögin á plötuna sem fékk heitið Justified. Plötunni var ætlað að höfða til eldra hóps en plötur ‘NSYNC höfðu gert. Svolítið var talað um að mörg lögin minntu á lög Michael Jacksons og var þar einna helst talað um lagið ,,Like I love you”. Á plötunni komu nokkrir frægir söngvarar fram og má þar einna helst nefna Janet Jackson. Vinsælasta lag plötunnar reyndist svo vera ,,Cry me a river” sem komst mjög ofarlega á vinsældarlista út um allan heim. Justin segir um sjálfan sig að hann sé mjög ástríðufullur gagnvart öllu sem hann tekur sér fyrir hendur: ,,Ég trúi því að þegar maður tekur sér eitthvað fyrir hendur þá eigi maður að setja allt sem maður getur í það, því annars er það ekki þess virði,” segir hann.
Áhugamál hans eru meðal annars að spila körfubolta og að ropa :S Ef hann væri ekki söngvari þá mundi hann einna helst vilja vera atvinnumaður í körfubolta. Og þó að það að ropa sé hans versti ósiður þá segist hann sjálfur vera einstaklega góður í því og getur ropað mjög kröftuglega.