Hin fagra “It Girl” Bretlands, viðskiptasnillingurinn og fegurðardísin.
Nú er nóg komið af því að lofa mjónur og spýtur á fermingaraldri og kominn tími á grein um alvöru konu, seiðandi konu sem er rómuð fyrir ótrúlega fegurð, matargerð og snilld í viðskiptum auk þess að þykja góður penni. Konu með geislandi, kvenlegt útlit gömlu Hollywood stjarnanna, konu á besta aldri sem allir þekkja.
Konu sem er eins og konur eiga að vera!
Frægasti sælkeri heimsins sem seður augu og maga heimsbyggðarinnar og elskaðasti kokkur heimsins er Nigela Lawson. Hún er kölluð “It Girl Bretlands” en “it” er orð sem notað er til að lýsa ólýsanlegum sjarma líkt og þeim sem skærustu stjörnur Hollywood hafa þótt búa yfir.
Hún þykir einnig hafa “Girl Next Door” sjarman því hún er eðlilega, afslappaða týpan sem allir elska.
Margoft hefur verið fjallað um Nigelu Lawson sem fegurstu konu Bretlands en það er óvenjulegt við hana að fegurð hennar er algjörlega náttúruleg. Nigela hefur aldrei farið í fegrunaraðgerðir og nú þegar aldurinn er að færast yfir hana reynir hún ekki að leyna því enda er fegurð hennar ekki eins og blóma sem fölna heldur verður hún virðulegri, tígulegri og kannski einnig örlítið dularfyllri í útliti með aldrinum og þó er hún alltaf þessi sama fagra kona. Hún er með dökkt hár og stór brún augu, tíguleg, kvenleg og mátuleg í vexti en ekki óeðlilega grönn því hún elskar að borða. Hún hefur klassískan stundaglasvöxt stjarnanna á gullaldarárum Hollywood en ekki sjúklegt útlit heróínsjúklings og mættu ungar stúlkur og konur taka hana sér til fyrirmyndar.
Hún er frægasti kokkur heimsins, frægari en jafnvel hinn ungi, hressi piltur sem kallar sig “kokkur án klæða” og er Breti eins og hún og býr yfir sama breska heillandi viðmóti sem skilar sér svo vel á skjánum.
Nigela Lawson er gyðingur en varla strangtrúuð þar sem hún eldar alls konar mat. Foreldrar hennar unnu hjá bresku ríkisstjórninni. Hún er greind kona og slungin í viðskiptum. Hún hefur komist til æðstu metorða í kokkabransanum, er virt blaðakona og hefur stórgrætt á viðskiptum sínum í sjónvarpsheiminum auk þess að njóta mikillar alþýðuhylli vegna persónuleika síns og sinnar miklu fegurðar.
Hún byrjaði feril sinn á að skrifa matargagnrýni fyrir aukablað Sunday Times “The Spectator” en þar sem hún var besti penni blaðsins og þótti ómissandi var hún hækkuð í tign og gerð ritstjóri þess. Í framhaldi af því varð hún einnig ritstjóri matardálks Vouge og greinar hennar urðu fastur liður í Times Magazine. Í dag skrifar hún auk þess meðal annars fyrir Evening Standard, The Guardian og Daily Telegraph í Bretlandi og blöð eins og Gourmet og Bon Appetit í Bandaríkjunum.
Nigela Lawson hin fagra hefur sína eigin einstöku aðferð í eldhúsinu sem hún lýsir á eftirfarandi hátt:“Að ná hæstu hæðum ánægju með sem minnstri áreynslu” og þessa leið kennir hún sælkerum heimsins.
Lawson er ekkja hins fræga breska sjónvarpsmanns John Diamond og á með honum börnin tvö dótturina Cosminu og soninn Bruno. Þessi fræga og fagra kona veður í karlmönnum en afar erfitt er að vinna hylli hennar svo hún er ein á báti eftir dauða manns síns þrátt fyrir ótal gylliboð eftirsóttra manna.
Bækur hennar um matreiðslu hafa hlotið ótal virt verðlaun og matreiðsla hennar er jafn elskuð af almenningi og færustu kokkum heims.
Nigela Lawson er án efa fegursti kokkur jarðarinnar og seður augu heimsbyggðarinnar ekki síður en maga. Hún er einnig áhrifamesti og þekktasti kokkur heimsins og þetta allt þrátt fyrir að hún sérhæfi sig í eldamennsku fyrir almenning sem er einföld, fljótleg og ódýr og gerir líf fólks skemmtilegra, kryddaðra og bragðmeira.
Eldamennska er henni mikil ástríða og eldar hún oft í miklum ham og gleymir sér við eldhússtörfin fyrir framan myndavélarnar og er jafnvel dálítill klaufi líkt og landi hennar “kokkur án klæða”.
Hún sýnir okkur að eldamennska er lifandi og ástríðufull athöfn eins og hún lýsir í bók sinni “Eilíft sumar” og matarlystin og matarlistin eru bestu mælikvarðarnir á hvað skal gera hverju sinni, en ekki skeiðar og decilítramál sem hún notar næstum aldrei.
Því mælir sá sem hún notar við matreiðslu sína er mælir hins hungraða hjarta.
Heimildir: stylenetwork.com