Leikarinn Viggo Mortensen, sem hlaut heimsfrægð fyrir leik sinn í Hringadróttinssögu, var staddur á landinu í liðinni viku. Líkt og Aragorn er kappinn mikill knapi og fór Viggo ásamt syni sínum, Henry Mortensen, tvisvar sinnum á hestbak hjá Hestaleigunni í Laxnesi. Þeir héldu í tvo tveggja klukkustunda útreiðartúra um nágrenni Laxness, að sögn Hauks Þórarinssonar hjá hestaleigunni, sem fór með feðgunum í seinni túrinn.
Vaskaði upp sjálfur
“Hann er vanur knapi og hafði gaman af. Þeir lentu í úrhellisslyddu í fyrra skiptið en skemmtu sér vel. Þeir fengu sér kjötsúpu á eftir og hann vaskaði meira að segja sjálfur upp,” segir Haukur um alþýðlegheit Viggos.
Feðgunum líkuðu íslensku hestarnir vel. “Mér skilst að hann hafi ekki prófað íslenska klára áður en hann var vel sáttur,” segir Haukur.
Sem dæmi um ást Viggos á hestum þá óskaði hann þess að Aragorn fengi að vera meira á hestbaki í Hringadróttinssögu en í fyrstu var ætlunin. Hann hafði ennfremur hest sinn í myndinni ávallt nærri og fór á hestbak þegar ekki var verið að mynda til að styrkja samband manns og hests.
Mortensen-feðgarnir fóru af landi brott í gær en þess má geta að hinn 15 ára Henry hefur leikið í kvikmyndum eins og pabbinn. Hann lék m.a. son Viggos á hvíta tjaldinu í myndinni Blóðrauð sjávarföll (Crimson Tide) frá árinu 1995.
Haukur er mikill aðdáandi Hringadróttinssögu, bæði bókanna og myndanna, og var því ánægður með heimsóknina. “Þetta er mikill heiður.”
Morgunblaðið
So.. sá hann eikkur :P?