Veitingahúsinu Nyla í New York, sem tengist söngstjörnunni Britney Spears, verður bráðlega lokað eftir aðeins fjögurra mánaða rekstur. Á ýmsu hefur gengið eftir að veitingahúsið var opnað, þar á meðal kom upp matareitrun, þrír yfirmatreiðslumenn hafa hætt störfum hver á eftir öðrum og menn börðust með hnífum utan við veitingahúsið.
Fréttavefurinn Bang hefur eftir heimildarmanni að Nyla verði lokað innan skamms. Hann segir að Britney hafi ekki lagt fé í reksturinn heldur aðeins lánað nafn sitt.
Britney er sögð vera í rusli vegna málsins. Aðeins viku eftir að veitingahúsið var opnað fengu þrjár konur matareitrun eftir að hafa borðað „uppáhaldsrétt matsveinsins", grillaðan aborra. Konurnar lögðu fram kvörtun og starfsfólk staðarins baðst afsökunar.
Skömmu síðar neitaði Britney að bera vitni í réttarhöldum yfir Bobby Ochs fyrrum viðskiptafélaga sínum en hann var ákærður fyrir að greiða ekki leigu fyrir veitingastað sem hann rak áður. Á Britney yfir höfði sér ákæru fyrir að vanvirða dóminn.
Skömmu eftir að þriðji yfirmatreiðslumaðurinn var ráðinn til staðarins bárust fréttir af hnífabardaga utan við staðinn. Tveir menn höfðu byrjað að rífast inni í veitingastaðnum en leikurinn barst út á götu.
Nyla er í Dylan hótelinu í New York. Aðsóknin hefur verið dræm.