16. desember 1944 gerðu Þjóðverjar örvæntingarfulla (og vonlausa) tilraun til að snúa stöðunni á vesturvígstöðvunum sér í hag. Þeir söfnuðu saman þó nokkru herliði og gerðu óvænta leifturárás á óviðbúna víglínu Bandamanna í Ardennaskógi í Belgíu.
Í fyrstu varð Þjóðverjum nokkuð ágengt, sérlega af því veðrið var þeim hagstætt, svo þungbúið að flugvélar Bandamanna gátu ekki athafnað sig. Einnig má nefna að liðið sem þeir sendu fram var reyndara en hið “græna” bandaríska lið sem víðast gætti línunnar, og skriðdrekar þeirra voru mun öflugri. Í nokkra daga ríkti hreinasta ringulreið meðal bandarísku hersveitanna á meðan Þjóðverjar léku lausum hala.
En velgengni Þjóðverja varði ekki lengi; Herstjórn Bandamanna náði fljótlega tökum á ástandinu, og hið gríðarlega ofurefli þeirra fór að segja til sín. Á Þorláksmessu létti síðan loks til, og flugvélar Bandamanna gátu hafið sig á loft…
Á myndinni sést hvar þýskur skriðdreki af Konungs-Tígur gerð reynir í örvæntingu að flýja inn í skjól skógarins, undan árásarflugvélum af Hawker Typhoon-gerð.
Meira um þessa orrustu hér:
http://en.wikipedia.org/wiki/Battle_of_the_bulge