Kæru Hugarar.
Nú er komið að því að nám mitt og einkalíf segir stopp á áframhaldandi starfsemi mína hér á Huga.
Það eru c.a. þrjú og hálft ár síðan ég byrjaði að bjóða upp á aðstoð við hin ýmsu málefni, þó aðallega varðandi vandamál í samskiptum kynjanna á áhugamálinu /romantik þar sem enn sitja eftir mig greinar í greinardálki Fróðleiksmola og svör sem ég veitti fólki er hafði samband við mig í gegnum „Spurt og svarað“ fyrirspurnarhorn. Í gegnum þessi þrjú ár hjálpaði ég, þótt ég hafi aldrei nákvæmlega talið, vel yfir 100 manns - og sumum oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Svo var það fyrir, að mig minnir, fyrir rúmu ári síðan þegar mér bauðst hér yfirstjórnendastaða sem ég þáði og tók því aðstoð mína fyrir notendur Huga upp á nýtt plan.
Ég vil þakka öllum traustið sem mér var veitt til að ráðleggja um hin ýmsu vandamál er að ykkur sóttu. Þetta var mér ekki síður fróðlegt og veitti mér mikla ánægju og gleði að rétta öðrum hjálparhönd þegar illa stóðu. Ég kynntist mörgu ungu og efnilegu fólki og hlakka til að sjá hvað þær kynslóðir sem Hugi hefur alið af sér munu gera fyrir samfélagið í komandi framtíð.
Einnig vil ég þakka samstjórnendum mínum mjög gott samstarf – og þá ekki síst Vefstjóra, sem ég vann náið með að mörgum verkefnum til að bæta og efla Huga á mörgum sviðum. Okkar kunningsskapur mun ekki enda þótt ég kveðji Huga hér með.
Hafið það sem allra best kæru Hugarar. Þetta er búið að vera gott, gefandi og gaman og þakka ég ykkur fyrir skemmtilega og fræðandi tíð í mínu lífi. Vonandi lifir Hugi sterkur um ókomna tíð, sem og þið sjálf.