ÁSKORUN Sæl öll

Mig langar að hafa eftir tilkynningu frá Skjánum:
-
Í ljósi samdráttar á auglýsingamarkaði, ójafnrar samkeppni frá RÚV og óvissu um innkaupsverð á sjónvarpsefni frá útlöndum hefur Skjárinn tilkynnt öllum starfsmönnum sínum að þeim verði sagt upp frá og með 1. nóvember.
Vonast er til að uppsagnirnar þurfi ekki að taka gildi en til þess að starfsemi SkjásEins geti haldið áfram þurfa stjórnvöld að taka ákvörðun um að hér ríki eðlilegt samkeppnisumhverfi, sambærilegt við það sem er til staðar á öðrum Norðurlöndum.
Á hverju ári fær RÚV 3.000 milljónir króna í forskot frá okkur skattgreiðendum og getur því notað þann pening til að yfirbjóða aðrar stöðvar við kaup á efni.
Einnig undirbjóða þeir frjálsu stöðvarnar við sölu auglýsinga.
Stjórnendur og starfsmenn munu taka höndum saman á næstu vikum til þess að starfsemin geti haldið áfram, áhorfendum og auglýsendum til heilla.
Áhorf á SkjáEinn er í sögulegu hámarki og við treystum því og trúum að landsmenn allir og stjórnvöld styðji áframhaldandi veru frjálsra fjölmiðla á Íslandi.
Við biðjum þig því að setja nafn þitt á listann og ganga til liðs við okkur svo að SkjárEinn megi lifa sem lengst.

Starfsmenn Skjásins
-

Ég bið því alla sem vilja hafa áfram aðgang að ókeypis sjónvarpsstöð á Íslandi að fara inn á skjarinn.is og skora á Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og ríkisstjórn Íslands að leiðrétta þessa skökku samkeppnisstöðu og tryggja þar með veru frjálsra fjölmiðla á Íslandi.

Að gefnu tilefni vil ég taka það fram að Hugi mun vera starfræktur áfram og engin áform uppi um að breyta því.

Kveðja,
Vefstjóri