Eftir að sorglegur atburður átti sér stað fyrir skömmu síðan er snerti notanda á hugi.is hefur umræðan um stafsetningar og málfars einelti aukist til muna og er talsvert um skiptar skoðanir notenda varðandi málefnið. Í kjölfar þess taldi ég rétt að segja nokkur orð.
Hugi.is er staður þar sem fólk af nánast öllum aldri og allstaðar að kemur til þess að ræða saman um áhugamál sín jafnt sem dagleg málefni. Eins og gengur og gerist eru einstaklingar mismunandi í getu sinni er kemur að stafsetningu jafnt sem málfari. Þar af leiðandi hefur verið nokkuð algengt að sumir notendur vilja benda öðrum á villur er koma fram í notkun þeirra á móðurmáli okkar.
Að vilja aðstoða og leiðbeina öðrum notendum í fyrrnefndum þáttum er gott og blessað, en öllu skiptir framsetningin á þeirri aðstoð. Nauðsynlegt er að sýna kurteisi og að gera sér grein fyrir því að ýmsir þættir geta spilað inn í getu fólks til þess að beita íslenskunni á réttan hátt. Sumir þjást af lesblindu eða öðrum námsvanda, aðrir koma erlendis frá og eru þar af leiðandi með mismikla kunnáttu í íslensku og svo framvegis.
Munið að fólk er þjáist af hinum ýmsu örðuleikum gerir sér að jafnaði grein fyrir því. Það tekur því oft viljastyrk og kjark að reyna að tjá sig þegar vandi til tjáningar liggur fyrir og ber okkur að virða það og meta.
Að benda fólki á sem gerir eina og eina stafsetningar eða málfarsvillu er gott og blessað, svo lengi sem kurteisi er í fyrirrúmi – og kallast þá jákvæð og uppbyggjandi gagnrýni. Þó skal hugsa sig tvisvar um þegar einstaklingur sendir frá sér efni þar sem stafsetningu og málfari er mjög ábótavant. Þá er líklegt að eitt af því sem ég áður nefndi (námsörðuleikar, erlendur uppruni o.s.frv.) spili þar þátt og verður sá einstaklingur að fá að fínpússa kunnáttu sína á móðurmáli okkar á eigin hraða án afskipta annarra.
Hafið einnig í huga að þar sem hvorki blæbrigði í rödd okkar né líkamstjáning okkar skilar sér í gegnum Huga, þá er nauðsynlegt að gera fólki grein fyrir því að um jákvæða gagnrýni sé að ræða. Rannsóknir gefa til kynna að stór partur af tjáningu okkar í garð annarra liggur í líkamstjáningu (>65%) og er því mikilvægt að gera sér grein fyrir hversu mikið tapast í samskiptum okkar við aðra yfir internetið þegar um textaform eingöngu er að ræða. Þetta er ein af ástæðum fyrir því að broskallaformið kom til, sem þjónar ágætlega þeim tilgangi að koma tilfinningum og geði til skila. Þannig að ef þið viljið benda einstakling á hitt eða þetta sem mögulega gæti vakið upp pirring eða reiði ef mistúlkun á ábendingu ykkar á sér stað, mæli ég eindregið með notkun þeirra.
Öll erum við viðkvæm fyrir neikvæðri gagnrýni. Þar af leiðandi þjóna svör uppfull af slíkri gagnrýni engum tilgangi þar sem fólk bregst illa við, fer í vörn og græðir ekkert á gagnrýninni nema vanlíðan.
Komum fram við aðra hér á bæ líkt og við viljum að komið sé fram við okkur – og gleymum aldrei að aðgát skal höfð í nærveru sálar.