Mín túlkun á XP er eitthvað á þá leið að það sem menn eiga að einbeita sér að er að setja upp reglur og vinnuvenjur sem miða að því að gera fólki kleift að semja hugbúnað á áhrifaríkan hátt, öfugt við þá hugmynd að skilgreina skjöl og afurðir sem eiga að leiða til góðs hugbúnaðar. Ef við tökum þessa hugmynd skrefi lengra, þá snýst þetta um að “búa til” félagslega uppbyggingu (e. social structure) með sterkri endursvörun og stuttum samskiptaleiðum, sem er verður til þess að sá hugbúnaður sem búinn er til er raunverulega að taka á þeim vandamálum sem þarf að taka á, frekar en einhverju sem menn ímynduðu sér í upphafi. Síðan eru reyndar nokkrar tæknilegar aðferðir sem þarf að nota til að þetta gangi upp, aðallega endurtakanlegar prófanir, sífelld endurskoðun á kóða (refactoring), rýni (alltaf tveir að vinna að kóða samtímis) ofl.
“Gallinn” við þessa aðferð er að hún krefst mjög mikils aga, líklega meiri heldur en nokkur önnur aðferð sem ég hef séð (RUP, CMM, ISO900x þar með talið), og mun meiri vinna er sett á viðskiptavininn heldur en í öðrum aðferðafræðum, sem getur gert það erfitt að fá hann til að “kaupa” þetta. Á móti kemur að sýnileiki og tilfinning viðskiptavinar fyrir árangri er miklu meiri en ella.
Nú er mín spurning til þeirra sem lesa þetta, eru einhverjir hér sem hafa spáð í þetta/eru að stunda XP/langar til að vita meira? Sú hugmynd hefur komið upp að safna áhugasömum saman (t.d. á kaffihúsi niðri í bæ) þar sem menn ræða reynslu og hugmyndir í sambandi við XP. Ef þú hefur áhuga, sendu inn svar.
-Gulli