Stærðfræðiþekking -> Abstract hugsunarháttur.
Það er ekki samasem-merki, og stærðfræðiþekking er ekki skilyrði fyrir abstract hugsunarhætti, en abstract hugsun er eitthvað sem leiðir af því að kunna stærðfræði. Skipuleg vinnubrögð skipta máli, en eru ekki afgerandi. “Góð kerfisgreining” skiptir mun meira máli hér, og það sem gerir menn hæfa þar er abstract hugsunarháttur. Mín fullyrðing er því u.þ.b. eftirfarandi:
Stærðfræðingur -> Abstract hugsun -> Góður kerfisgreinandi
Að sjálfsögðu eru undantekningar á þessu, það eru til stærðfræðingar sem þekkja hvorki haus né sporð á tölvukerfum, og þeir greina hvorki eitt né neitt á því sviði. En þeir sem eru á annað borð í hugbúnaði, þeir eru góðir. Ég þekki 4-5 stærðfræðinga sem eru í hugbúnaði, og þeir eru allir í topp 10-15 af þeim forriturum sem ég þekki til, og ég hugsa að ég hafi hitt langflesta forritara hér á landi sem falla í þann flokk sem ég talaði um hér að ofan.
Varðandi skilgreiningu á abstract, þá er það örlítið erfitt. Að mínu mati þá er ekki til neitt almennilegt íslenskt orð yfir þetta, “hugrænn”, “sértækur”, “óhlutbundinn” eru allt orð sem hafa verið notuð, ætli “óhlutbundinn” sé ekki einna skást.
Í mínum huga felst hæfileikinn til að hugsa abstract í því að geta dregið saman hugmyndir á bak við ólíka hluti, og geta gert það _endurkvæmt_, þ.e. að draga aftur saman slíkar hugmyndir í aðrar hugmyndir, osfrv. Í því samhengi er mjög mikilvægt að geta litið á hluti/hugmyndir frá mismunandi sjónarhornum, yfirleitt er hægt að finna margar mismunandi “abstractions” á sömu hlutunum.
N.b. ég er ekki stærðfræðingur, var ekki einu sinni neitt sérlega góður í henni í HÍ, svo þessar skoðanir hafa ekkert með eigin hæfileika að gera, nema kannski skort þar á :-)