Flestir hafa heyrt um gervigreind, eða artificial intelligence (AI), í bíómyndum eða í heimspekilegum umræðum um eðli mannsins. Færri hafa þó heyrt um þróun hennar í raunveruleikanum og líta jafnvel á gervigreind sem (a) einhvers konar vúdú-kukl, (b) fjarlægan draum sem aldrei muni rætast eða © eitthvað sem ætti að forðast fram í rauðan dauðann. Þess konar hugmyndir eru þó víðsfjarri sannleikanum. Greindar vélar eru nú þegar orðnar að veruleika og farnar að gera gagn.
Fyrir ári síðan tókst að búa til fyrsta vélmennið sem getur hlaupið. Fyrir rúmum tveimur mánuðum bárust fréttir um fyrsta vélmennið sem getur hjólað á reiðhjóli og fyrir um mánuði síðan komust 5 ómönnuð farartæki hjálparlaust yfir 212 km eyðimörk í alþjóðlegri keppni – þeim stjórnaði enginn.
Ísland er fámennt land og afskekkt eins og flestir Íslendingar finna tvímælalaust fyrir. En það er ekki þarmeð sagt að það sé afskekkt í orðsins fyllstu merkingu; þegar kemur að tækni og nýjungum þá eru við ótrulega fljót að kynna okkur málin. Þrátt fyrir þessa nýjungagirni okkar þá hefur þó lítið sem ekkert borið á að þjóðin kynni sér vélmenni og g-greind.
ISIR, borið fram “Æsir”, er félag ólíkt öllum öðrum sem stofnuð hafa verið hér á landi. Í stuttu máli er ISIR ætlað að ýta undir þróun, rannsóknir og kynningu á gervigreind hér á landi. Um er að ræða félagasamtök (e. non-profit organization) stofnuð og rekið af áhugasömum nemendum sem fannst ekki nóg til gervigreindarsamfélags Íslands koma. Við stefnum á að halda félaginu eins almennu og opnu og hægt er fyrir alla þá sem hafa áhuga, óháð stöðu, menntun eða sérsviði. Gervigreind er ekki lengur aðeins á færi sérfræðinga að framkvæma – nú til dags er til ókeypis hugbúnaður á vefnum sem gerir jafnvel börnum kleift að gera tilraunir með g-greind.
Við viljum efla þátttöku Íslendinga í öllu sem við kemur gervigreind og vitvísindum og tryggja það að Ísland verði ekki útundan í þessari mikilvægu tæknibyltingu sem vex nú hraðar en nokkurn tíman í sögu mannkynsins.
ISIR er umfram allt félag um gervigreind og forritun, en þar sem gervigreind er mjög víðfemt fag fylgjum við nýstárlegri og mikilvægri hugmyndafræði: að gera ekki ráð fyrir að rannsóknir á gervigreind séu einskorðaðar við neitt eitt fag, heldur gera fólki frjálst að skýra sitt sjónarhorn á því efni sem fjallað er um, með tilvísun í aðferðafræði þeirra vísinda sem henta hverju sinni. Með þessu vonumst við til að skapa betri heildarsýn á þau viðfangsefni sem tengjast gervigreind og vitvísindum en tekist hefur hingað til. Þar með skapast einnig breiðari grundvöllur fyrir samstarf milli stofnana, einstaklinga og fyrirtækja. Sökum þess hve gervigreind er víðfeðm kalla rannsóknir á mjög fjölbreytt samstarf. Þróun gervigreindar verður m.a. að styðjast við náið samstarf tölvunarfræðinga, sálfræðinga, rafverkfræðinga, heimspekinga og líffræðinga svo eitthvað sé nefnt. Síðast en ekki síst þarf stuðning almennings og áhugafólks til að búa til frjóan grundvöll til umræðna.
Því má segja að ISIR sé félag um vitvísindi sem notar tölvunarfræði og forritun sem verklega undirstöðu.
Nú þegar hefur starfsemi félagsins borið ávöxt – spjallborð ISIR opnaði nýlega á http://forum.isir.is og sömuleiðis hafa félagsmenn einnig opnað upplýsingavefinn ISIRWiki (wiki.isir.is), en það er upplýsingakerfi líkt og hin víðfræga alfræðiorðabók wikipedia.org, þar sem notendur kerfisins bæta sjálfir og breyta efnisinnihaldi síðunnar. Einnig höfum við hafist handa við kennsluforrit í Erfðaalgrímum (e. genetic algorithms). Er forritin sjálf nú þegar hægt að nálgast á svn.isir.is, en þau eru skrifuð í Java forritunarmálinu frá SUN og eru bæði til í Java 1.4 og Java .1.5 útfærslum.
Þess má geta að efnisinnihald ISIRWiki heyrir undir GNU Freedoc License – sem þýðir að allt það efni sem safnast á vefinn verður frjálst til notkunar nánast hvar og hvernig sem er! Þar sem kerfi á borð við þetta er í þágu allra vona aðstandendur ISIR að sem flestir noti vefinn. Bent er á að vefurinn býður upp á mjög vítt efnissvið, allt frá almennri tölvunarfræði til sálfræði og heimspeki, því er líklegt að flestir komi til með að finna (eða skrifa) eitthvað sem þeim finnst áhugavert á ISIRWiki.
ISIR er félag fyrir þá sem eru áhugasamir um greind, g-greind og þá möguleika sem tækni framtíðarinnar ber í skauti sér. ISIR er félag fyrir þá sem vilja að Ísland taki framfaraskref og ýti gömlu moldarkofunum enn lengra aftur í fortíð okkar. Stefnt er á formlega opnun í febrúar á næsta ári – þangað til er hægt að fylgjast með á vefsíðu, spjallborðum og upplýsingakerfi félagsins, eða hafa samband við hópinn í pósti.