Núna undanfarið hef ég mikið verið að spá í framtíðinni. Hvað mig langar að gera/læra eftir stúdentspróf. Ég veit nefnilega ekki hvort ég vilji vinna við eða læra meira á tölvur. Það eru fullt af öðrum möguleikum sem mig langar að geta valið úr. Fara til útlanda í skóla/vinna, læra stærðfræði/heimspeki/eðlisfræði eða einhverjar listir, eða bara hvað sem er.

Þessvegna er ég núna að spá hversu mikinn möguleika maður hefur á því að lifa af, ef maður stefnir á einhverskonar forritunarvinnu…

Hver er framtíð okkar sem forritarar. Verður alltaf not fyrir okkur? Verða launin ekki bara súper lág? Er framtíð forritunar ekki sú að það þurfi alltaf færri og færri forritara, þó verkefnin verði stærri og stærri?

Nú er orðið svo algengt að fyrirtæki ráði forritara frá löndum þar sem krónan/dollarinn er mun verðmætari og láti vinna fyrir sig verkefni úr fjarska fyrir svimandi lágar upphæðir. Hvernig er hægt að keppa við svoleiðis?

Hvernig væri að sett væru á lög, sem bönnuðu sölu hugbúnaðarvinnu yfir landamæri? Ætli það mundi nokkuð ganga upp…

Hugbúnaður er auðvitað svo allt öðruvísi fyrirbæri en nokkuð annað sem verið hefur haft sem söluvara í gegnum aldirnar. Yfirleitt ef fólk lætur gera eitthvað einhversstaðar annarsstaðar, þá þarf að borga fluttningskostnað á móti, sem jafnar þesskonar mismun út í flestum tilfellum. Þannig er þessu auðvitað ekki háttað í hugbúnaðargerð.

Varðandi vinnuna, ætli það endi ekki á því að einhver gervigreind sér um að forrita allt fyrir mann? Þá yrði nú mikið um atvinnulausa forritara :). Varðandi launin, ég held að það sé nú nokkuð öruggt að í framtíðinni verði forritarar nokkuð láglaunaðir.

Hvað finnst ykkur? Hjálpið mér nú að taka ákvörðun…
________________________________