Jæja, þá er komið að því. Nýtt tímabil er að hefjast í formúlunni og með því hefst spáleikurinn hérna á Huga líka. Þetta árið sjáum ég (Mendel) og Loevly um umsjón leiksins þannig að öllum spurningum og vafaatriðum varðandi hann skal beint til okkar.

Hér eru síðan reglurnar fyrir leikinn í ár.

Spánni skal skilað inn sem áliti við viðeigandi grein á spáleikskubbnum á Formúla 1 áhugamálinu. Spár fyrir tímatöku og/eða keppni skulu settar í sama álitið og þá skýrt tilgreint hvor spáin á við tímatöku og svo keppni. Þátttakendum er auðvitað frjálst að senda einungis inn spá fyrir annað hvort keppni eða tímatöku, kjósi þeir það frekar. Einnig er best að setja númer við nöfn ökumanna þannig að engin vafi leiki á hvaða sætum þeim er spáð. Spá skal innihalda niðurröðun allt að 10 ökumanna, en aldrei verða veitt stig fyrir fleiri en 10 sæti.

Spár, bæði fyrir tímatöku og keppni, þurfa að hafa borist fyrir miðnætti á föstudagskvöldi keppnishelgi. Það er auðvitað hægt að biðla til góðmennsku okkar ef um er að ræða einhverjar mínútur en spár sem berast eftir að tímataka hefst eru í öllum tilvikum ógildar.

Stigagjöf er þannig að 1 stig fæst fyrir að spá fyrir um rétt sæti í tímatöku, annars ekkert. Fyrir að spá rétt fyrir um sæti í keppni fást 3 stig, en 1 stig fæst ef spáin var einu sæti frá réttum úrslitum, þar með talið ef ökumaður lendir í 11. sæti en var spáð í 10.
Að auki ákváðum við að spá mætti fyrir um hver næði hraðasta hring í keppninni og fást 2 stig fyrir að hitta á réttan ökumann.

Við munum reyna að birta niðurstöður hverrar keppnishelgar eins fljótt og hægt er, þó ekki fyrr en kærufrestur er liðinn, sem er held ég alveg örugglega að sé á þriðjudögum eftir keppni. Einnig munum við miða við opinber úrslit formúlunnar frá formula1.com.

Það er ekki stefnt að því að hafa verðlaun fyrir fyrsta sæti í lok spáleiksins, fyrir utan heiðurinn að geta kallað sig getspakasta formúlu 1 áhugamann Huga 2009.

En þá er bara að ydda blýantana, blása rykið af 20 hliða teningnum, drekka úr kaffibollanum, stokka spilastokkinn, rifja upp fylgniútreikningana, pússa kristalskúluna, skoða stjörnukortin eða þjálfa giskhæfileikana og ganga til verks.

Góðar stundir við spágerðina.
Mendel og Loevly


Viðbót:
Við höfum ákveðið að breyta aðeins reglunum þannig að spá fyrir keppni þarf að hafa borist fyrir miðnætti á laugardag. Auðvitað viljum helst fá bæði tímatöku og keppni saman fyrir miðnætti á föstudag, en keppnisspá verður ekki ógilduð fyrr en eftir miðnætti á laugardag.
Stupid men are often capable of things the clever would not dare to contemplate…