Rúmlega 8 mánaða sögu Brawn liðsins er nú formlega lokið: Nýjir fjárfestar hafa keypt 70,1 % í liðinu og verður nafn liðsins Mercedes GP árið 2010.
Þó spannar saga keppnisliðsins sem slíks rúmlega hálfa öld.
Tyrrell Racing var stofnað af Ken Tyrrell árið 1958 og hóf kappakstur í minni kappakstursmótum. Árið 1968 hóf Tyrrell Racing að keppa í Formúlu 1, fyrst um sinn á Matra-bifreiðum sem liðið keypti, og Jackie Stewart, ökumaður liðsins, heimsmeistaratitil árið 1969.
Eftir að hafa keppt á March bílum megnið af tímabilinu 1970 tefldi Tyrrell fram keppnisbíl í eigin nafni, og náði Stewart ökumannstitlum 1971 og 1973, og að sama skapi náði Tyrrell titli bílasmiða árið 1971.
Jackie Stewart hætti kappakstri í F1 eftir tímabilið 1973, en þó átti Tyrrell ágætis spretti fram yfir miðjan 8. áratuginn, en náðu aldrei aftur heimsmeistaratitlum.
Tyrrell vann síðasta sigur sinn í Detroit í Bandaríkjunum árið 1983, en auk sigurs í lokamótinu árið 1982 voru það einu sigrarnir sem liðið hafði unnið frá árinu 1976.
Árið 1984 var versta ár í sögu Tyrrell liðsins. Tyrrell liðið var enn knúið áfram að Ford mótor, en var nú eina liðið sem ekki hafði mótor með forþjöppu, og bitnaði það mjög á samkeppnishæfni bílsins. Því var reynt að hafa aukageymi um borð, fyllt með blýblönduðu vatni, sem sleppt var í upphafi kappakstursins, og síðan var tankurinn endurfylltur í lok kappaksturs til að stemma af lágmarksvigt bílsins. Upp komst um atvikið um mitt tímabilið þegar að Martin Brundle komst á verðlaunapall í Detroit, og var liðið þegar dæmt úr leik, Tyrrell liðið áfrýjaði, en hafði ekki erindi sem erfiði, og á síðari hluta tímabilsins 1984 var liðið dæmt úr leik þar sem eftir lifði tímabilsins og voru öll úrslit og stig liðsins á því ári þurrkuð út.
Þrátt fyrir að slíkt hneyksli endurtæki sig ekki aftur náði liðið sér aldrei aftur á strik, og var oftar en ekki í aftasta hópi á ráslínu, ef þeir náðu þangað á annað borð.
Árið 1998 var Tyrrell liðið selt til tóbaksframleiðandans British American Tobacco (B.A.T.), og hóf keppni árið 1999 undir nafninu British American Racing. Ætlaði það sér stóra hluti á sínu fyrsta tímabili, en hafði ekki erindi sem erfiði. B.A.R. keppti í Formúlu 1 á árunum 1999 til og með 2005, lengst af með Honda mótor. Besta árangri náði liðið árið 2004 þegar það varð í 2. sæti í keppni bílasmiða, og blandaði Jenson Button sér á tímabili í titilslaginn. Ekki náði þó liðið að landa sigri á þeim tíma sem það keppti í F1.
Honda, sem hafði séð um vélamál B.A.R. frá árinu 2000, keypti B.A.R. liðið, og hóf kappakstur árið 2006, 38 árum eftir að þeir höfðu síðast teflt fram liði í Formúlu 1. Honda náði sínum besta árangri einmitt árið 2006, en þar vann Button sigur í rigningakeppni í Búdapest, sem varð eini sigur Honda liðsins í F1. Tímabilin 2007 og 2008 voru mikil vonbrigði fyrir Honda liðið, og tók Honda þá ákvörðun að hætta kappakstri í árslok 2008.
Í mars á þessu ári stofnaði Ross Brawn, áður tæknistjóri Honda (og fleiri liða), keppnisliðið Brawn GP, sem varð til svo að segja á elleftu stundu, rétt fyrir upphafsmótið. En við tók svo að segja F1-afbrigði af ævintýrinu um Öskubusku: liðið með Jenson Button og Rubens Barrichello sem ökumenn sigraði 6 af fyrstu 7 keppnum ársins, og vann samtals 8 keppnir á árinu, og hampaði titlum ökumanna og bílasmiða á sínu fyrsta - og eina - keppnistímabili.
Saga Brawn liðsins er lokið, en Mercedes Benz tilkynnti í gær að það hefði keypt ríflegan meirihluta í liðinu og mun það keppa í eigin nafni frá og með komandi tímabili.
Heimildir: http://www.wikipedia.org