Frentzen var rekinn án fyrirvara rétt fyrir kappaksturinn í Þýskalandi á nýliðnu tímabili og allar tilraunir hans og liðsins til að ná samkomulagi utan réttarsala hafa mistekist. Það kemur því væntanlega í hlut enskra dómstóla að skera úr um réttmæti krafna Frentzen.
Sú upphæð sem Frentzen fer fram á byggist á launakröfum vegna ökumannsstarfs hans, auk almannatengslavinnu sem hann sinnti fyrir liðið í Englandi stuttu fyrir brottreksturinn.
Þrátt fyrir deilurnar milli þessara aðila vonast Eddie Jordan eftir að það góða samband sem þeir tveir áttu til langs tíma muni lagast með tímanum. Írinn segir að lífið sé of stutt til að eyða því í svona illindi.
Þótt lögfræðingar Eddie Jordan hafi ráðlagt honum að tjá sig ekki um málið opinberlega, sagði hann í samtali við F1 Magazine að þó samband þeirra væri stirt í augnablikinu, hefðu komið stundir þar sem þeir hefðu lent í félagsskap hvers annars, eins og um borð í flugvélinni á leið til Suzuka, þar sem hann sagði andrúmsloftið ekki geta skilgreinst sem fjandsamlegt.
“Það var ekki eins og áður var, en við töluðum saman, til að byrja með um Formúluna almennt og síðan spjölluðum við um það sem við hefðum verið að gera og hvað væri framundan. Þetta er allavega byrjunin.” sagði Eddie Jordan. “Það mun taka tíma að verða eins og það var, en lífið er of stutt til að bera kala til hvers annars.
Í Formúlunni er maður fljótur að jafna sig á svona hlutum. Þó menn greini á um einhverja hluti þýðir ekki að menn geti ekki spjallað saman um borð í flugvélum. Í sannleika sagt hafa meiri og betri menn en við stefnt hvorum öðrum og ég kýs að halda þessu máli aðskildu frá sambandi mínu við Heinz-Harald.”
