Klippan sem er í gangi þegar þetta er skrifað er eitthvað sem ég sá á YouTube fyrr í haust.
Þetta mun vera tekið eftir að keppninni lauk, sem var 68 hringir.
Vélin í bíl Frakkans René Arnoux (Ligier) gaf upp öndina á 64. hring, og einum hring seinna bilaði túrbóið hjá Svíanum Stefan Johansson (Ferrari).
Philippe Alliot (liðsfélagi Arnoux), sem kláraði keppnina, ætlaði að vera svo góður að taka Arnoux og Johansson upp í hjá sér.
Síðan lögðu þeir af stað, en bíllinn komst aðeins örfáa metra þar sem bíllinn hans Alliot var bensínlaus (þau ár voru engar bensínáfyllingar leyfðar).
En örfáum andartökum seinna átti Brasilíumaðurinn Nelson Piquet (Williams) leið framhjá, og gerði sér lítið fyrir og tók alla 3 uppí.
Þess má geta að í dag er þetta tæknilega bannað (þó svo að svona hafi oft verið gert), þar á meðal í spænska kappakstrinum 2001 þegar að kúplingin í bíl Mika Häkkinen gaf sig 800 m frá köflótta flagginu. David Coulthard liðsfélagi Häkkinens bauð honum far inn á viðgerðarsvæðið, en báðir fengu þeir væna sekt fyrir.