Morgunblaðið (Mbl.is), 24. nóv. 2006
Hamilton við hlið Alonso hjá McLaren
Enski ökuþórinn Lewis Hamilton keppir fyrir McLarenliðið í formúlu-1 á næsta ári við hlið Fernando Alonso. Er Hamilton fyrsti blökkumaðurinn til að keppa í formúlunni. Hann varð heimsmeistari í GP2-mótunum í ár. „Draumar mínir um að eiga eftir að keppa fyrir McLaren í formúlu-1 hafa ræst. Það hefur verið mitt æðsta takmark um árabil,“ sagði hann.
McLaren staðfesti ráðningu Hamiltons í morgun og með því bindur liðið enda á margra mánaða vangaveltur um hvort hann fengi tækifæri til að keppa með liðinu á næsta ári. Hjá því hefur hann verið í fóstri um árabil.
Hann segir að það sé mikil áskorun að hljóta starf keppnisþórs hjá McLaren. „Ég verð undir smásjá margra. Liðið hefur sagt mér að slappa bara af og reyna gera mitt besta og njóta tækifæranna. Ég mun leggja hart að mér til að ná árangri,“ sagði Hamilton eftir að hafa verið ráðinn liðsfélagi Alonso.
McLaren og Mercedes-Benz hafa stutt við bakið á Hamilton í níu ár, eða frá því hann var keppandi á körtum. Hann varð heimsmeistari í GP2-mótunum í ár en það er undirdeild formúlu-1. Þá sigraði hann í Evrópumótaröðinni í formúlu-3 í fyrra.
Pedro de la Rosa og Gary Paffett verða áfram reynsluökuþórar McLaren á næsta ári. Sá fyrrnefndi leysti Juan Pablo Montoya af hólmi á nýliðinni keppnistíð og keppti í átta síðustu mótum ársins; frá og með franska kappakstrinum.
Jæja, þá er það hér með komið á hreint hver verður bak við stýrið í bíl nr. 2 á næsta tímabili.
Hvað finnst ykkur um þessa niðurtöðu?
Bætt við 25. nóvember 2006 - 00:01
P.s. Ég biðst afsökunar að stafsetningarvillu í nafni Lewis Hamilton í fyrirsögn korksins!