þetta er ritgerð sem ég gerðii í fyrra ég fékk 10 þeta er samt ekki montt ég ætla bara að koma á framfæri almenum upplýsingum.

Mika Häkkinen


Í umfjöllun minni hér á eftir ætla ég að segja frá Formúlu 1 ökumanninum Mika Häkkinen. Ég mun segja örlítið frá uppruna hans, áhugamálum, keppnisferli og síðast en ekki síst slysi sem hann lenti í árið 1995.

Mika Häkkinen er finnskur, fæddur í Vantaa, stutt frá Helsinki, þann 28.september árið 1968. Hann er búsettur í Mónakó, en er finnskur ríkisborgari. Árið 1998 kvæntist hann finnskri konu að nafni Erja Honkanen og eiga þau einn dreng sem fæddur er í nóvember árið 2000. Áhugamál Häkkinens eru tennis, köfun, fjallahjólreiðar og hjólaskautar.
Snemma byrjaði áhugi hans á bílum. Aðeins fimm ára gamall fékk hann kart bíl og tveimur árum seinna vann hann sinn fyrsta sigur í kart kappakstri í Keimola í Finnlandi. Þannig hóf hann sinn feril og hver sigurinn rak annan. Hann varð Norðurlandameistari árið 1987 í Formula Ford 1600 kappakstrinum. Seinna þegar hann var farinn að keppa í Formúlu 3 kappakstrinum vann hann ásamt Mika Salo hvern kappaksturinn á eftir öðrum og var keppnin því farin að ganga undir nafninu Mika – Mika keppnin.
Hann keppti fyrst í Formúlu 1 kappakstri 10. mars 1991 í Phonix, Arisona í Bandaríkjunum fyrir Lotus-Judd. Það var svo árið 1993 að hann hóf að keppa fyrir McLaren liðið og hefur hann gert það síðan. Fljótlega vann hann sér álit manna og gælunafnið Finninn fljúgandi (The Flying Finn) festist við hann.
Gæfan var honum þó ekki alltaf jafn hliðholl. Árið 1995 lenti hann í alvarlegu slysi á Adelaide brautinni í Ástralíu. Häkkinen missti stjórn á McLaren- bifreið sinni í krappri hægri beygju, við það snarsnérist bíllinn og rakst á vegg sem var með ófullnægjandi hlíf úr einfaldri hjólbarðaröð. Við áreksturinn skall höfuð Mika af miklum krafti í stýri bílsins. Hann var höfuðkúpubrotinn, höfuð hans hentist aftur sveiflaðist stjórnlaust frá annarri hliðinni til hinnar. Häkkinen var enn með meðvitund en gat vart andað. Eftir tvær til þrjár mínútur hefði súrefnisskortur valdið heilaskaða og nokkrum mínútum síðar hefði hann dáið. Eingöngu vegna frábærrar frammistöðu læknanna á staðnum, sem gerðu bráðaaðgerð á barka Häkkinens, var hann á lífi þegar honum var lyft upp úr bifreiðinni. Þegar hann svo vaknaði til meðvitundar var það fyrsta sem hann vildi vita af hverju hann hefði farið út af, eða með öðrum orðum hvort það hefði verið honum sjálfum að kenna. Þremur vikum seinna var hann orðin nægilega hress til að fljúga aftur til Evrópu. Hófst þá löng og erfið endurhæfing. Seinna þegar Häkkinen sá myndir af slysinu lýsti hann því svo: ,, Ég fann sársauka og ég gat ekki hreyft mig en ég skildi hvað var á seyði. Ég man að ég sagði við sjálfan mig að ég skyldi slaka á og láta læknana vinna sitt verk. Ég skildi að ég var mjög illa slasaður. Ég fann að þeir lyftu mér og svo varð erfitt að anda og það varð sífellt erfiðara. Svo fann ég skelfilegan sársauka í hálsinum en þá hafa þeir verið að setja pípuna inn og svo missti ég meðvitund. Eftir það man ég ekkert fyrr en ég vaknaði á spítalanum og sá Sid Watkins standa yfir mér…” (Barist um bikarinn). Já, það má með sanni segja að þetta hafi verið erfitt, en Häkkinen gafst ekki upp. Aðeins þremur mánuðum seinna var hann kominn út á keppnisbrautina aftur. Hraði hans var meiri en aðrir keppendur höfðu náð.
Ef hratt er farið yfir sögu, var það í lok tímabilsins árið 1997 að Häkkinen vann sinn fyrsta sigur. Árið eftir náði hann því langþráða takmarki að verða heimsmeistari í Formúlu 1 kappakstri. Endurtók hann leikinn aftur árið 1999. Gengi hans var ekki jafn gott næstu tvö árin. Hefur Häkkinen tekið sér árs leyfi, því eins og hann segir sjálfur: ,,Formúla 1 hefur nánast verið allt mitt líf, ég hóf að aka körtum 1974. Þessu hefur fylgt gífurlegt álag sem reynist þeim sem nærri mér standa æ erfiðara…” (mbl.is). Ýmsar sögusagnir hafa verið á kreiki um það hvort Häkkinen komi aftur eða ekki. Hvað sem því líður, er hann einn af fremstu ökumönnum Formúlu 1 kappakstursins og mun hans verði lengi minnst.

Ég vona að þú lesandi góður hafir jafn gaman af að lesa þessa umfjöllun mína og ég hafði af því að gera hana. Sannarlega vona ég að Häkkinen komi aftur á næsta ári, og að ég eigi eftir að heyra aftur vélarhljóðið í bílnum hans og sjá hann með eigin augum eins og ég gerði í fyrra.