4. mars 2010 var tilkynnt um ráðningu í síðasta lausa ökumannssætið fyrir upphafsmótið í Bahrain sem fram fer helgina 12.-14. mars. Jafnframt var gefinn út opinber „entry“ listi FIA yfir keppnislið í Formúlu 1 árið 2010, en USF1 keppnisliðið dró sig í hlé svo að segja korteri fyrir ræsingu vegna fjárhagserfiðleika.
Stuttur listi yfir keppnislið og ökumenn:
Vodafone McLaren Mercedes (BRE)
1: Jenson Button (BRE) (heimsmeistari 2009, fluttist frá Brawn GP)
2: Lewis Hamilton (BRE) (heimsmeistari 2008)
Mercedes GP Petronas Formula One Team (ÞÝS)
3: Michael Schumacher (ÞÝS) (heimsmeistari 1995-96 og 2000-04, keppti síðast með Ferrari 2006)
4: Nico Rosberg (ÞÝS) (fluttist frá Williams)
Red Bull Racing (AUS)
5: Sebastian Vettel (ÞÝS)
6: Mark Webber (ÁST)
Scuderia Ferrari Marlboro (ÍTA)
7: Felipe Massa (BRA) (kominn aftur eftir meiðsli)
8: Fernando Alonso (SPÁ) (heimsmeistari 2005-06, fluttist frá Renault)
AT&T Williams (BRE)
9: Rubens Barrichello (BRA) (með flestar keppnir að baki, fluttist frá Brawn GP)
10: Nico Hülkenberg (ÞÝS) (nýliði)
Renault F1 Team (FRA)
11: Robert Kubica (PÓL) (fluttist frá BMW Sauber)
12: Vitaly Petrov (RÚS) (nýliði)
Force India F1 Team (IND)
14: Adrian Sutil (ÞÝS)
15: Vitantonio Liuzzi (ÍTA)
Scuderia Toro Rosso (ÍTA)
16: Sébastien Buemi (SVI)
17: Jaime Alguersuari (SPÁ)
Lotus Racing (MAL) – nýtt lið
18: Jarno Trulli (ÍTA) (fluttist frá Toyota)
19: Heikki Kovalainen (FIN) (fluttist frá McLaren)
Hispania F1 Racing Team (SPÁ) – nýtt lið
20: Karun Chandhok (IND) (nýliði)
21: Bruno Senna (BRA) (nýliði)
BMW Sauber F1 Team (SVI) – „endurræst“ lið
22: Pedro de la Rosa (SPÁ) (keppti síðast með McLaren 2006)
23: Kamui Kobayashi (JAP) (fluttist frá Toyota)
Virgin Racing (BRE) – nýtt lið
24: Timo Glock (ÞÝS) (fluttist frá Toyota)
25: Lucas di Grassi (BRA) (nýliði)
Ökumenn í Formúlu 1 2009 sem ekki munu keppa 2010, a.m.k. fyrst um sinn:
Luca Badoer: Þróunarökumaður hjá Ferrari.
Sébastien Bourdais: Keppir í Superleague Formula.
Giancarlo Fisichella: Þróunarökumaður hjá Ferrari.
Romain Grosjean: Samningslaus.
Nick Heidfeld: Þróunarökumaður hjá Mercedes GP.
Kazuki Nakajima: Undirbýr Stefan GP keppnisliðið fyrir hugsanlegt sæti í F1 2011.
Nelson Piquet jr.: Keppir í NASCAR.
Kimi Räikkönen: Keppir í heimsmeistaramótinu í ralli.
Keppnislið sem hætt eru keppni / hafa breytt um nafn:
Toyota Racing: Hættir keppni.
USF1: Hættir við þátttöku.
Nánari umfjöllun um liðin:
Vodafone McLaren Mercedes
Eftir niðursveiflu á fyrrihluta tímabilsins í fyrra sem endaði með 3. sæti í keppni bílasmiða virðist McLaren liðið nú sigurvisst, þrátt fyrir að liðið sé ekki lengur aðalliðið hjá vélarframleiðandanum Mercedes. Þó hafa McLaren og Mercedes ákveðið að halda samstarfinu áfram, a.m.k. út keppnistímabilið 2012, en McLaren og Mercedes hafa haft með sér samstarf síðan 1995 sem fært hefur liðinu 1 titil bílasmiða og 3 titla ökumanna.
Fjórða keppnistímabilið í röð ekur Bretinn Lewis Hamilton, heimsmeistarinn frá 2008, fyrir McLaren-liðið. Í stað Heikki Kovalainen, sem farinn er til Lotus, er kominn ríkjandi heimsmeistari, Bretinn Jenson Button.
Er þetta í fyrsta sinn sem McLaren er skipað albresku ökumannsteymi, að frátalinni Long Beach kappakstrinum árið 1980, þegar Stephen South ók við hlið John Watson þegar að Alain Prost úlnliðsbrotnaði í keppninni á undan. Til að kóróna hina bresku ökumannslínu er Gary Paffett sem fyrr þróunarökumaður McLaren, en Pedro de la Rosa sem einnig var þróunarökumaður við hlið Paffett var ráðinn ökumaður hjá endurreistu BMW Sauber liðinu.
Keppnisbíll McLaren í ár ber nafnið McLaren MP4-25.
Mercedes GP Petronas Formula One Team
Búist er við miklu af ríkjandi heimsmeisturum bílasmiða á síðasta ári, en liðið styrktist mikið þegar að Mercedes bílaframleiðandinn keypti Brawn GP í nóvember og ákvað að breyta nafni liðsins í Mercedes. Greinilegt er að Ross Brawn liðsstjóri hefur gert góða hluti með keppnisliðið sem naumlega náði að bjarga frá lokun korteri fyrir ræsingu fyrir ástralska kappaksturinn 2009.
Líklega varð hörmuleg vertíð Honda liðsins árið 2008 til þess að tæknimenn liðsins lögðust snemma í þá vinnu að hanna keppnisbílinn fyrir 2009, litlu virðist hafa breytt sú kreppa sem liðið lenti í þegar að Honda ákvað að leggja upp laupana. Niðurstaðan: meistaratitlar ökumanna og bílasmiða á 1. – og jafnframt síðustu vertíð, undir eigin nafni.
Þó spannar saga liðsins meira og minna aftur til ársins 1970, upprunalega í formi fyrrum meistaraliðsins Tyrrell Racing. 1998 keypti British American Tobacco liðið og breytti heiti þess í British American Racing (B.A.R.). Haustið 2005 ákváðu Honda verksmiðjurnar, sem höfðu veitt B.A.R. vélar í bílana, að kaupa upp liðið og keppa undir eigin nafni. Árangurinn lét verulega á sér standa og ákváðu Honda verksmiðjurnar að draga sig í hlé um áramótin 2008-09. Afganginn af sögunni vitum við.
Mercedes hafa áður keppt í Formúlu 1 sem bílaframleiðandi, en liðið keppti í Formúlu 1 á 4. áratugnum með vænum stuðningi frá Þriðja ríki Hitlers, meira en áratug áður en Formúla 1 varð að opinberu heimsmeistaramóti. Bílar Mercedes voru á þeim árum ekki málið, heldur voru bílarnir krómaðir, og þaðan kemur gælunafnið Silfurörvarnar sem svo frægt er.
Mercedes mætti aftur í Formúlu 1 árið 1954, með Juan Manuel Fangio, einn besta ökumann 6. áratugarins, undir stýri. Heimsmeistarakeppni bílasmiða hófst ekki fyrr en 1958, en Mercedes og Fangio unnu engu að síður titla ökumanna 1954 og 1955. Vegna hræðilegs slyss sem varð í Le Mans 24 kappakstrinum (ekki tengdur Formúla 1) um mitt sumar 1955, sem varð með þeim hætti að Mercedes bifreið sem að lenti út úr brautinni splundraðist og sprakk, og varð 80 manns að bana, ákvað Mercedes Benz að draga sig sem úr leik í Formúlu 1, þangað til að þeir hófu vélaframleiðslu fyrir Sauber árið 1993. En nú eru „Silfurörvarnar“ komnar aftur í Formúlu 1, og forvitnilegt verður að sjá hvernig þeim á eftir að reiða af á þeim tímum sem að bílaframleiðendur kjósa fremur að yfirgefa kappakstursmótaraðir.
Algjör endurnýjun hefur orðið á ökumannsliðinu í vetur; Jenson Button heimsmeistari ákvað að söðla um eftir 7 keppnistímabil og ákvað að fara til McLaren. Rubens Barrichello er farinn til Williams liðsins og þróunarökumennirnir Anthony Davidson og Alexander Würz eru horfnir úr Formúlu 1 og óvíst um nokkra þátttöku í Formúlu 1.
Í staðinn hefur liðið farið svipaða leið og McLaren, og hefur liðið nú al-þýskt ökumannsteymi. Gamla kempan og heimsmeistarinn Michael Schumacher snýr aftur til Formúlu 1 eftir 3,5 árs hlé, en eins og kunnugt er vann hann 7 heimsmeistaratitla (5 með Ferrari og 2 með Benetton). Hann snýr nú aftur í F1 41 árs gamall, og verður með því aldursforseti Formúlu 1 líkt og þegar hætti árið 2006. Nico Rosberg, sem áður ók með Williams frá 2005, er kominn til Mercedes í skiptum fyrir Rubens Barrichello. Þróunarökumaður Mercedes verður Nick Heidfeld, en hann náði ekki að tryggja sér keppnissæti í Formúlu 1 eftir 10 keppnisvertíðir samfellt, þar sem hann keppti fyrir Prost, Sauber, Jordan, Williams og núna síðast fyrir BMW Sauber.
Samstarfsaðili Mercedes verður jarðefnaeldsneytisframleiðandinn Petronas, sem áður var samstarfsaðili BMW Sauber og þar áður Sauber liðsins.
Keppnisbíllinn mun bera nafnið Mercedes MGB W01.
Red Bull Racing
Red Bull Racing er nú að hefja sína 6. vertíð undir eigin nafni. Árangur liðsins í fyrra er besti árangur liðsins hingað til, sem og fyrirrennara þess; Jaguar og Stewart. Liðið fór mjög hægt af stað í mótið í fyrra, en á síðari helmingi vertíðarinnar náðu þeir verulega að ógna forskoti Brawn GP, en enduðu að lokum í 2. sæti. Red Bull hefur ákveðið að brúka áfram Renault vélar.
Ökumannsteymi liðsins breytist lítið; bæði Sebastien Vettel og Mark Webber munu aka áfram sem keppnisökuþórar liðsins. Ný-Sjálendingurinn Brendon Hartley mun áfram verða þróunarökumaður hjá liðinu, en í stað David Coulhard mun Ástralinn Daniel Ricciardo gegna hlutverki þróunarökumanns hjá liðinu.
Keppnisbíll Red Bull mun bera nafnið Red Bull RB6.
Scuderia Ferrari Marlboro
Ferrari liðið þarf að sætta sig við einn sinn lakasta árangur í keppni bílasmiða síðan 1981, eða 4. sætið, þó svo liðið hafi raunar aðeins verið 1 stigi á eftir 3. sætinu. Vertíðin í fyrra fór líkt og hjá McLaren afar illa af stað, og ekki bætti úr skák slys Felipe Massa í miðri vertíðinni sem setti öll plön Ferrari út af laginu, sér í lagi þar sem afleysingarökumennirnir, Luca Badoer og Giancarlo Fisichella, virtust ekki ráða við Ferrari bílinn í mótunum sem eftir voru. Eini sigur liðsins kom í belgíska kappakstrinum, hann vann Kimi Räikkönen, en liðið vann enga ráspóla.
Mikið hefur farið fyrir ökumannsmálum Ferrari í vetur, líkt og í fyrra. Að vísu er Felipe Massa snúinn aftur til keppni eftir hið skelfilega slys sem varð í fyrra, eins og samið hafði verið um. En Kimi Räikkönen er farinn út úr Formúlu 1 með látum, þar sem Ferrari hefur látið hann taka pokann sinn og greiddi honum að auki árið sem hann átti eftir af samningi sínum. Í stað Räikkönen er kominn Fernando Alonso fv. heimsmeistari, sem hefur nú yfirgefið Renault í annað sinn og freistar gæfunnar með ítalska liðinu, og má segja að koma hans til Ferrari hafi verið „verst geymda leyndarmálið“ allt árið 2009. Þróunarökumennirnir Marc Gené og Luca Badoer halda áfram störfum þróunarökumanna hjá liðinu, til liðs við þá er kominn Giancarlo Fisichella, sem með afleysingarakstri sínum í fyrra skrifaði jafnfram undir samning um þróunarakstur 2010.
Aðalstyrktaraðili Ferrari verður sem oft áður Marlboro.
Keppnisbíllinn ber heitið Ferrari F10, en nafnavenja Ferrari hefur alla tíð reynst afar óáreiðanleg og tilviljanakennd.
AT&T Williams
Keppnislið Frank Williams og Patrick Head hefur nú sína 33. vertíð í Formúlu 1. Þetta fyrrum meistaralið í Formúlu 1 hefur ekki gert miklar rósir undanfarin ár, en liðið vann síðasta sigur sinn í F1 í árslok 2004, og síðustu titla árið 1997. Í fyrra varð liðið í 7. sæti í keppni bílasmiða, en þar sem Toyota liðið er hætt keppni, og BMW Sauber keppnisliðið hefur verið „endurræst“ með nýjum eigendum, þá er liðið talið upp 5. í röðinni hér.
Vegna brottfalls Toyota varð Williams liðið að velja sér nýjan vélarframleiðanda, og gerði samning við Cosworth, en Williams og Cosworth áttu með sér samstarf keppnistímabilið 2006.
Williams liðið hefur nú skipt út báðum ökumönnum sínum, Nico Rosberg er farinn frá Williams til Brawn, og í skiptum fyrir hann kominn starfsaldursforsetinn Rubens Barrichello. Sömuleiðis er Kazuki Nakajima farinn frá liðinu til Stefan GP, og í staðinn fyrir hann er kominn nýliðinn Nico Hülkenberg, 23 ára Þjóðverji, sem var þróunarökumaður liðsins í fyrra. Þróunarökumaður Williams í ár verður Finninn Valtteri Bottas.
Líkt og frá árinu 2007 mun AT&T fjarskiptafyrirtækið verða aðalstyrktaraðili Williams.
Keppnisbíllinn mun bera heitið Williams FW32.
Renault F1 Team
Keppnislið Renault á síðasta ári fékk mikla athygli á síðasta ári, en ekki þá athygli sem þeir vonuðust eftir. Liðið átti tvisvar yfir höfði sér keppnisbann, annars vegar 1 móts keppnisbann þegar að þjónustuliðið sendi Alonso vísvitandi út úr þjónustureininni þegar ljóst var að ekki var búið að fullfesta eitt dekkið, og eins þegar að upp komst um meiriháttar svikamál, þegar að Nelson Piquet yngri (sem þá hafði verið nýlega rekinn frá liðinu) ljóstraði því upp að árekstur hans í Singapúr kappakstrinum 2008 hefði ekki verið neitt óhapp, og endaði það með því að tveir æðstu stjórnendur keppnisliðsins fengu keppnisbann og voru látnir fjúka úr liðinu.
Sannarlega fékk liðið a.m.k. ekki athygli út á neinn glæsilegan keppnisárangur, þar sem að liðið endaði í 8. sæti í keppni bílasmiða, með 1 ráspól og 1 brons. ING bankinn hafði þegar gert það ljóst að þeir myndu ekki styrkja Renault eftir vertíðina 2009, en þegar að svindlið í Singapúr komst í hæstu hæðir ákváðu þeir þegar í stað rifta samningi sínum við Renault í því skyni að vernda orðspor sitt.
Fjárfestingafyrirtæki að nafni Genii Capital festi kaup á ¾ hlutum liðsins í nóvember, liðið mun áfram keppa undir sama nafni en rekstur liðsins verður stokkaður upp.
Ökumannsteymi liðsins hefur verið verulega umbylt. Fernando Alonso hefur yfirgefið liðið að nýju og er farinn til Ferrari. Roman Grosjean náði ekki samningum við nýja eigendur liðsins og er eins og er án ökusamnings. Þróunarökumaðurinn Lucas di Grassi er kominn með keppnissæti hjá Manor / Virgin Racing.
Robert Kubica er kominn til Renault eftir 4 keppnistímabil með BMW Sauber. Liðsfélagi hans verður nýliðinn Vitaly Petrov, 26 ára Rússi sem hefur keppt í GP2 mótaröðunum undanfarin ár. Þróunarökumenn liðsins verða Kínverjinn Ho-Pin Tung, Tékkinn Jan Charouz og Belginn Jérôme d‘Ambrosio.
Keppnisbíllinn mun bera heitið Renault R30.
Force India F1 Team
Keppnislið Vijay Mallya er nú að hefja sína 3. vertíð í Formúlu 1. Eftir brösótt gengi 2008 náði liðið að sýna fína spretti á síðari hluta vertíðarinnar í fyrra, ekki síst með ráspól og silfri Fisichella í belgíska kappakstrinum í fyrra (sem raunar varð hans svanasöngur fyrir liðið). Árangurinn má ekki síst þakka Mercedes vélunum sem liðið tryggði sér fyrir 2009 vertíðina, og mun það samstarf halda áfram 2010. Endaði liðið í 9. sæti í keppni bílasmiða í fyrra.
Adrian Sutil og Vitantonio Liuzzi munu halda áfram kappakstri fyrir liðið. Þróunarökumaður liðsins verður Bretinn Paul di Resta.
Keppnisbíllinn ber heitið Force India VJM03.
Scuderia Toro Rosso
Eftir óvæntan árangur árið 2008 þar sem liðið náði að skella móðurliðinu Red Bull ber liðið eftir vertíðina í fyrra nafn með rentu sem B-lið Red Bull. Liðið náði aðeins 8 stigum og varð því neðst af þeim liðum sem kepptu í fyrra, þ.e. í 10. sæti. Liðið hefur eins móðurliðið ákveðið að halda óbreyttum vélarsamningi, þ.e. mun áfram brúka Ferrari mótora.
Liðið mun áfram halda Sébastien Buemi og Jaime Alguersuari sem aðalökumönnum sínum, en liðið deilir þróunarökumönnum með móðurliðinu, þ.e. ökumönnunum Brendon Hartley og Daniel Ricciardo.
Keppnisbíllinn mun bera heitið Toro Rosso STR5
Lotus Racing
Lotus-liðið er fyrst í röðinni í upptalningunni af nýju liðunum sem að FIA samþykkti til þátttöku í ár.
Lotus Racing er malasískt keppnislið í eigu 1Malaysia F1 Team, sem meðal annars er í eigu malasíska ríkisins, Sepang brautarinnar sem hýsir malasíska kappaksturinn, og malasíska kappaksturssambandsins.
Nafnið Lotus er þó mörgum kunnugt í akstursíþróttaheiminum, en samnefnt breskt kappaksturslið, Team Lotus, keppti í Formúlu 1 á árunum 1954-1994 og náði 6 titlum ökumanna og 7 titlum bílasmiða, en lognaðist útaf vegna fjárhagserfiðleika.
Eins og hin nýju keppnisliðin mun Lotus Racing notast við Cosworth mótora, sem FIA samdi um fyrirfram handa liðunum.
Fyrsta ökumannsteymi liðsins verður skipað Jarno Trulli, sem fór frá Toyota þegar liðið hætti keppni, og Heikki Kovalainen, sem kemur frá McLaren. Þróunarökumaður Lotus verður Malasíumaðurinn Fairuz Fauzy.
Heiti fyrsta Lotus bílsins verður Lotus T127.
Hispania F1 Racing Team
Spánverjinn Adrian Campos er fyrrum keppandi í Formúlu 1, og hefur rekið keppnislið og jafnvel heila mótaröð. Undir hans forystu var sótt um stað á ráslínunni 2010 undir nafninu Campos Meta 1. Fljótlega rak liðið þó í fjárhagsvandræði, og var jafnvel tvísýnt um þátttöku þess í mótinu 2010. Í febrúar tók stærsti hluthafinn, José Ramón Carabante, yfir liðið, og er Adrian Campos genginn út úr liðinu. 3. mars var tilkynnt um breytt heiti liðsins yfir í HRT F1 Team eða öðru nafni Hispania Racing F1 Team.
Langan tíma hefur tekið að koma ökumannsskipan liðsins á hreint, en núna er þó ljóst að tveir nýliðar munu koma inn í liðið, en það eru Karun Chandhok, 26 Indverji, og Bruno Senna, 27 ára Brasilíumaður og frændi Ayrton Senna heitins. Báðir hafa talsverða reynslu að baki úr GP2 mótaröðinni. Ekki hefur verið ráðinn þróunarökumaður, en viðræður standa yfir við Argentínumannin José María López, sem hafði tryggt sér sæti með USF1 liðinu áður en það hætti við þátttöku í ár.
Hispania er eina liðið sem ekki hefur ennþá frumsýnt og frumekið bíl sínum og er óvíst um nafnið á nýja bílnum, líklega verður bíllinn ekki frumsýndur fyrr en á föstudagsæfingunni fyrir Bahrain kappaksturinn.
BMW Sauber F1 Team
Í ljósi herfilegs árangurs BMW Sauber á fyrri hluta vertíðarinnar í fyrra ákvað BMW að verða ekki hópi þeirra liða sem keppa myndu á næsta ári. Þrátt fyrir það var Peter Sauber, fyrrum eigandi gamla Sauber liðsins keypt var af BMW 2005, ekki sáttur við þau málalok sem ætluð voru liðinu hans sem hann hafði byggt upp meira og minna frá árinu 1993. Hófst hann þá handa við það að afla liðinu nýrra fjárfesta, og tókst að fá fyrirtækið Qadbak Investment til að gerast stofnfjárfestir í liðinu. Næst tók við þó önnur óvissa, þar sem FIA hafði þegar samþykkt 13 lið til þátttöku á árinu 2010 á þeim tímapunkti, þá hafði hið nýja keppnislið Sauber stöðu nýs liðs á hliðarlínunni, og var jafnvel í umræðunni að reyna að fá aukapláss fyrir 14. liðið á ráslínunni, en tilhugsunin um 28 bíla á ráslínunni var mörgum ofviða. Í nóvember kom hins vegar upp sú staða að Toyota ákvað að draga keppnislið sitt úr Formúlu 1 vegna efnahagskreppunnar, og mánuði síðar var tilkynnt að hið nýja Sauber lið hefði fengið pláss Toyota liðsins.
Þrátt fyrir að BMW hefur dregið sig út úr liðinu hefur verið ákveðið að halda áfram nafninu BMW Sauber F1 Team á liðinu, út keppnisvertíðina 2010.
Sauber liðið hefur samið við Ferrari um útvegun véla fyrir liðið.
Allir þeir ökumenn sem kepptu með BMW Sauber í fyrra eru farnir til annarra starfa; Robert Kubica er farinn til Renault, Nick Heidfeld er orðinn þróunarökumaður hjá Mercedes og Christian Klien sem var þróunarökumaður er án samnings.
Í stað þeirra eru komnir Kamui Kobayashi, sem vakti athygli í síðustu mótunum í fyrra meðan hann leysti af Timo Glock, og reynsluboltinn Pedro de la Rosa, sem kominn er aftur með fast keppnissæti í fyrsta sinn síðan 2002, en hann var í millitíðinni þróunar- og varaökumaður hjá McLaren liðinu. Ekki hefur verið ráðinn þróunarökumaður til liðsins.
Keppnisbíllinn mun bera nafnið BMW Sauber C29.
Virgin Racing
Síðasta nýja liðið í þessari upptalningu er Virgin Racing, sem er eitt af 3 glænýjum liðum sem taka þátt í F1 keppninni.
Liðið lagði upprunalega fram umsókn um sæti í Formúlunni undir nafninu Manor Grand Prix, en Manor hefur lengi verið við keppni í Formúlu 3 í Bretlandi. Richard Branson fjárfesti síðar í 80% af liðinu og var liðið með því endurnefnt Virgin Racing í höfuðið á fyrirtæki Branson.
Eins og önnur ný lið hefur Virgin Racing samið við Cosworth um vélar.
Fyrstu ökumenn Virgin Racing verða Timo Glock, sem eins og Trulli og Kobayashi misstu vinnuna þegar að Toyota lagði upp laupana, og nýliðinn og Brasilíumaðurinn Lucas di Grassi, 26 ára, sem lengi hefur keppt með góðum árangri í GP2 mótaröðinni. Þróunarökumenn liðsins verða Spánverjinn Andy Soucek og Brasilíumaðurinn Luiz Razia.
Keppnisbíll Virgin Racing mun bera heitið Virgin VR-01.
Heimildir
Wikipedia.org
StatsF1.com
Formula1.com
Mynd er fengin af vefsíðunni StatsF1.com, slóð: http://www.statsf1.com/constructeurs/photos/448/1429.jpg.