Það er stundum eins og sumir gangi ekki á öllum. David Coultard er greinilega að reyna að nýta sér þá athygli sem fylgir því að sigra í Formúlu 1 kappakstri. Það sem vekur furðu mína núna er að hann skuli vera að væla yfir því að Michael Schumacher hafi ekið í veg fyrir hann í startinu og þegar hann reyndi að taka framúr. Við sem höfum fylgst með F1 munum eftir því þegar Mika Hakkinen var uppá sitt besta og náði hvað eftir annað að vera í fremstu rásgrind að hann hafði það eitt markmið að hleypa ekki MS frammúr sér í startinu. Að sjálfsögðu reyna menn að gera það sem þeir geta til að koma í veg fyrir að slíkt komi fyrir. Það fylgir því ákveðnir kostir að ná fyrstu grind þess vegna leggja menn allt í sölurnar í tímatökunum. Ég minnist þess m.a. að Michael Schumacher varð að keyra útí grasið í einni keppninni vegna þess að MH sveigði í veg fyrir hann í startinu. Viðbrögð MS þegar hann var spurður útí það atvik voru eitthvað á þá leið að hann sagði að það hafi verið orðið dálítið þröngt um bílinn þannig að hann ákvað að fara örlítið útá grasið þrátt fyrir að það myndi hægja dálítið á bílnum. Það er hins vegar alveg dæmigert fyrir keppendur hjá ákveðnu liði að þeir eru fljótir að fara í vælið og falla niður á sandkassaskeiðið (með fullri virðinu fyrir börnum og leikjum þeirra) þegar eitthvað er ekki alveg eftir þeirra höfði.
Við getum einnig minnst á atvikið á SPA brautinni í Belgíu árið 1998 þegar David nokkur Coultard gerði nokkuð sem enginn Formúlu 1 keppandi eða aðdáandi skilur enn. Hvað var David Coultard að hugsa þá? Allir vita um þá hættu á banaslysi sem hann skapaði þá. Michael Schumacher varð að sjálfsögðu reiður í kjölfar þessa atviks. Reiði hans byggðist hins vegar ekki á því að hann missti af 10 stigum til heimsmeistaratitils heldur því að DC skapaði mikla hættu á alvarlegu slysi. Bílarnir voru þá á beinum kafla þegar DC hægði skyndilega á sér sem leiddi til þess að bíll MS lenti harkalega með hægra framhjólið á afturhjóli MacLaren bifreiðar DC. Áreksturinn var það harkalegur að hægra framhjól Ferrari bílsins hrökk af bílnum. Það atvik sem DC er að kvarta yfir, þegar hann reyndi framúrakstur, gerðist í hárspennubeygju þar sem hraðinn er um 50 km/klst. Það er líka alveg á hreinu að sá sem er í forystu velur aksturslínuna. DC hefur verið þekktur fyrir það að það sé erfitt að fara framúr honum, þannig að hann þekkir þá taktík sem menn nota í tilfellum sem þessum. Mér er það einkar ljúft að óska DC og aðdáendum hans til hamingju með sigurinn um helgina. Það að DC vann keppnina á Magny Cours kemur til með að hleypa spennu í keppnina og það er einmitt það sem við sem fylgjumst með F1 viljum. Hraði, spenna, átök, kraftur og dramatík er það sem fylgir F1 og gerir hana skemmtilega. En eitt verð ég þó að segja að lokum “Be a man DC”.