Hér ætla ég að skjóta inn í smá umfjöllun um keppnisliðin sem munu keppa á tímabilinu 2007.
McLaren
McLaren liðið hóf þátttöku í Formúlu 1 árið 1966.
Síðan þá hefur liðið unnið 148 keppnissigra, 8 titla í keppni bílasmiða og 11 titla í keppni ökumanna.
2006 gekk lítið hjá McLaren liðinu, en liðið endaði í 3. sæti með 110 stig án þess að vinna einn einasta sigur.
Hafa þeir ekki unnið keppni bílasmiða frá árinu 1998 og keppni ökumanna síðan 1999.
Heimsmeistarinn 2005 og 2006, Spánverjinn Fernando Alonso, sem keppti fyrir Renault liðið 2003-06, mun nú ganga til liðs við McLaren Mercedes, og sem heimsmeistari síðasta árs mun hann keyra bíl með keppnisnúmerinu 1.
Alonso verður 26 ára í júní.
Hann hóf akstur fyrir Minardi árið 2001. Hann hefur tekið þátt í 88 keppnum og unnið 15 sigra og 15 sinnum orðið á ráspól.
Hinn ungi Breti Lewis Hamilton mun þreyta frumraun sína í Formúlu 1 með McLaren.
Þrátt fyrir að vera aðeins 21 árs (janúar 2007) er hann þegar orðinn heimsmeistari í GP2 mótaröðinni, sem er stigi neðan við Formúlu 1 mótaröðina.
Einnig mun hann brjóta blað í sögu Formúlu 1, en hann mun vera fyrsti þeldökki maðurinn sem hefur þátttöku í Formúlu 1.
Varaökumenn verða Bretinn Gary Paffett og Spánverjinn Pedro de la Rosa, en sá síðarnefndi sast aftur í þann stól eftir að hafa leyst af Juan Pablo Montoya á líðandi ári.
Nýr keppnisbíll McLaren, MP4-22, verður afhjúpaður við formlega athöfn á Valencia brautinni á Spáni þann 15. janúar.
Renault
Renault keppnisliðið er að hefja sitt 15. keppnistímabil í formúlunni, en auk þess að hafa keppt frá árinu 2002 kepptu þeir að auki sem keppnislið á árunum 1977-85. Þeir voru þekktir fyrir að kynna Formúlu 1 fyrir hinni byltingarkenndu 6 strokka túrbóvél, sem varð allsráðandi á 9. áratugnum.
Alls hafa þeir unnið 33 sigra og 50 sinnum komist á ráspól.
Að auki notuðu eftirtalin lið Renault vélar; Lotus (1983-87), Ligier (1984-87; 1992-94), Tyrrell (1985-87), Williams (1989-97), Benetton (1995-97 og 2001) og Red Bull (2007).
2006 varð Renault liðið heimsmeistari annað árið í röð, með 206 stig.
Ítalinn Giancarlo Fisichella, sem nú er orðinn einn af elstu ökumönnum Formúlunnar (verður 34 ára í janúar), er að hefja sitt 3. tímabil með Renault, en hann hóf þátttöku í Formúlu 1 árið 1996 með Minardi liðinu, og að auki keppti áður fyrir Jordan, Benetton og Sauber.
Hann hefur tekið þátt í 179 keppnum, unnið 3 sigra og 3 unnið ráspól.
2006 varð Fisichella í 4. sæti með 72 stig og 1 sigur, hans persónulega besti árangur.
Finninn Heikki Kovalainen mun keppa í fyrsta skiptið í Formúlu 1 í mars.
Hann var tilraunaökuþór Renault 2005 og 2006. Hann varð í 2. sæti í GP2 mótaröðinni árið 2005, og vann fyrstu keppni ársins sem að auki var fyrsta keppni mótaraðarinnar.
Hann varð ,,meistari meistaranna” á Stade de France árið 2004, og komst í undanúrslit 2005 og 2006.
Kovalainen verður 26 ára í október.
Tilraunaökuþórar Renault eru Brasilíumennirnir Ricardo Zonta (sem keppti fyrir BAR liðið 1999 og 2000, og 2 keppnir fyrir Jordan árið 2001), og Nelson Piquet yngri (2. sæti í GP2 mótaröðinni 2006; sonur Nelson Piquet sem sem varð heimsmeistari í F1 1981, 1983 og 1987).
Nýr keppnisbíll Renault, R27, verður sýndur í Amsterdam í Hollandi þann 24. janúar.
Ferrari
Ferrari hefur keppt lengst allra núverandi keppnisliða, en þeir hófu þátttöku sína í Formúlu 1 árið 1948, og hafa því keppt frá því heimsmeistarakeppnin hófst árið 1950. Eftir 741 keppni hafa þeir unnið 193 keppnissigra, 14 titla í keppni bílasmiða (frá því hún hófst árið 1958) og 14 titla í keppni ökumanna.
2006 endaði Ferrari liðið í 2. sæti með 201 stig.
Ferrari hefur nokkrum sinnum séð öðrum liðum fyrir vélum (Minardi 1991, Dallara 1992, Lola 1993 og Red Bull 2006). Svo mun einnig verða í ár, en þá munu þeir knýja hitt Red Bull liðið, Toro Rosso, og Spyker bílana.
Finninn Kimi Räikkönen, sem keppti fyrir McLaren 5 keppnitímabil, var ráðinn til að leysa Michael Schumacher af hólmi.
Räikkönen hóf keppni með Sauber liðinu árið 2001.
Hann hefur tekið þátt í 105 keppnum, sigrað 9 sinnum og hefur 12 sinnum unnið ráspól.
2006 varð Räikkönen í 5. sæti með 65 stig en engan sigur, en hans besti árangur er 2. sæti í keppni ökumanna 2003 og 2005.
Hann verður 28 ára í október.
Brasilíumaðurinn Felipe Massa er að hefja sitt annað tímabil með Ferrari, en hann hóf keppni með Sauber 2002, og keyrði einnig fyrir þá 2004 og 2005.
Alls hefur hann tekið þátt í 71 keppni, unnið 2 sigra og 3 unnið ráspól.
2006 náði hann besta árangri sínum í keppni ökumanna þegar hann varð í 3. sæti með 80 stig og 2 sigra.
Hann verður 26 ára í apríl.
Tilraunaökuþórar Ferrari verða Ítalinn Luca Badoer (keppti fyrir Lola 1993, Minardi 1995 og 1999 og Forti 1996 (frægur fyrir að hafa ekið flestar keppnir í Formúlu 1 án þess að hafa hlotið eitt einasta stig); tilraunaökumaður Ferrari frá 1997 (nema 1999) og Spánverjinn Marc Gené (ökumaður fyrir Minardi 1999 og 2000, auk nokkurra keppna fyrir Williams 2003 og 2004).
Nýi Ferrari bíllinn, sem enn hefur ekki hlotið nafn, mun verða frumsýndur 16. janúar, en staðsetning er ekki komin á hreint.
Honda
Honda liðið hóf þátttöku sem keppnislið í Formúlu 1 að nýju árið 2006 eftir að hafa keypt upp BAR liðið, sem aftur átti rætur í Tyrrell liðinu sem hafði starfað frá 1970.
Færri vita þó að Honda keppti sem keppnislið í Formúlu 1 kappakstri á árunum 1964-68.
Alls hefur Honda liðið keppt sem keppnislið í 53 mótum, og hefur unnið 3 sigra og 2 unnið ráspól.
Honda liðið lauk keppni árið 2006 í 4. sæti með 86 stig.
Að auki tók Honda þátt sem vélaframleiðandi um tíma í F1 með Williams (1983-87), Spirit (1983), Lotus (1987-88), McLaren (1988-92), Tyrrell (1991), BAR (2000-05), Jordan (2001-02) og Super Aguri (frá 2006). Einnig sáu þeir fyrir vélum í samstarfi við Mügen til Footwork (1992-93), Lotus (1994), Ligier (1995-96), Prost (1997) og Jordan (1998-2000).
Bretinn Jenson Button heldur áfram hjá Honda liðinu, en hann fylgdi með frá BAR liðinu, en þar hafði hann keppt síðan 2003.
Button hóf þátttöku árið 2000 með Williams liðinu, 2001 keppti hann með Benetton og 2002 með Renault.
Button hefur tekið þátt í 120 mótum, hefur unnið 1 sigur og 3 ráspóla.
2006 varð Button í 6. sæti í keppni ökumanna með 50 stig og 1 sigur. Hans besti árangur er 3. sæti í keppni ökumanna árið 2004 með 85 stig.
Hann verður 27 ára í janúar.
Rubens Barrichello frá Brasilíu heldur sömuleiðis áfram hjá Honda liðinu.
Eftir brottfall Michael Schumacher er Rubens Barrichello orðinn reynslumesti ökumaður Formúlunnar sem enn keppir; en Barrichello hefur keppt óslitið síðan 1993, og hefur tekið þátt í 236 mótum.
Auk Honda hefur hann keppt fyrir Jordan (4 tímabil), Stewart (3 tímabil) og Ferrari (6 tímabil). Á 14 keppnistímabilum hefur hann unnið 9 sigra og 13 ráspóla.
2006 varð Barrichello í 7. sæti í keppni ökumanna með 30 stig. Hans besti árangur er 2. sæti 2002 og 2004.
Hann verður 35 ára í maí og er því næstelsti ökumaður Formúlunnar 2007.
Tilraunaökuþórar Honda liðsins eru Austurríkismaðurinn Christian Klien (ökumaður með Jaguar 2004 og Red Bull 2005 og 2006) og Bretinn James Rossiter.
Ekki hefur verið ákveðið hvar og hvenær nýja Hondan, RA107, verður frumsýnd.
BMW Sauber
BMW Sauber keypti sig inn í Sauber liðið fyrir keppnistímabilið 2006. Sauber liðið hafði þá keppt síðan 1993.
Ef talinn er með árangur Sauber frá 1993, þá hefur liðið tekið þátt í 233 mótum, og er þeirra besti árangur í keppni 3. sæti, og 2. sæti á ráslínu.
Luku BMW Sauber liðið keppni 2006 í 5. sæti í keppni bílasmiða með 36 stig.
BMW hefur þó lengri sögu sem vélarframleiðandi, en þau lið höfðu BMW vél í skottinu voru helst: Brabham (1982-87), ATS (1982-83), Arrows (1983-86), Benetton (1986) og Williams (2000-05).
Þýski ökumaðurinn Nick Heidfeld heldur áfram hjá BMW Sauber.
Hann hóf þátttöku með Prost liðinu árið 2000, keppti fyrir Sauber 2001-03, Jordan 2004 og Williams 2005.
Alls hefur hann tekið þátt í 115 keppnum, og er hans besti keppnisárangur 2. sæti, og 1 ráspóll.
2006 varð Heidfeld í 9. sæti með 23 stig, en hans besti árangur var 8. sæti með Sauber 2001.
Hann verður þrítugur í maí.
Pólski ökumaðurinn Roberto Kubica (fyrsti pólski ökumaðurinn í F1) heldur sömuleiðis áfram hjá BMW Sauber.
Hann hóf þátttöku á síðari hluta síðasta keppnistímabils, þegar hann upphaflega leysti af Jacques Villeneuve, sem var meiddur, og var síðar veitt sæti hans eftir glæsilega frammistöðu.
Hann náði 3. sæti í sinni 3. keppni, og endaði hann með sín 6 stig í 16. sæti í keppni ökumanna.
Kubica varð 22 ára nú í desember.
Tilraunaökuþórar BMW Sauber verða Þjóðverjarnir Sebastien Vettel og Timo Glock (keppti 4 keppnir fyrir Jordan árið 2004).
Nýi BMW Sauber bílinn, F1.07, verður frumsýndur á Valencia brautinni 16. janúar.
Toyota
Toyota liðið hóf þátttöku í Formúlu 1 árið 2002 og hefja því sitt 6. tímabil.
Þeir hafa tekið þátt í 87 keppnum, og er þeirra besti árangur í keppni 2. sæti og 2 ráspólar.
2006 lauk Toyota keppni í 6. sæti með 35 stig.
Toyota sá einnig Jordan og síðar Midland liðinu fyrir vélum árin 2005-06, og mun knýja Williams í ár.
Þjóðverjinn Ralf Schumacher er að hefja sitt 3. tímabil með Toyota í F1.
Schumacher hóf keppni árið 1997 með Jordan og ók með þeim til 1998 og ók með Williams liðinu 1999-2004.
Hann hefur tekið þátt í 162 keppnum, og hefur unnið 6 sigra og jafnmarga ráspóla.
2006 lauk hann keppni í 10. sæti í keppni ökumanna með 20 stig, en hans besti árangur er 4. sæti árin 2001 og 2002.
Ralf verður 32 ára í júní.
Ítalinn Jarno Trulli hóf þátttöku í Formúlu 1 með Minardi liðinu 1997. Á miðju tímabilinu hljóp hann í skarðið hjá Prost þegar að Olivier Panis fótbrotnaði. Ók hann næstu 2 tímabil hjá Prost liðinu, en ók síðan 2 tímabil hjá Jordan. 2002 hóf hann að keppa hjá nýja Renault liðinu og var þar til á síðari hluta tímabilsins 2004, en hann var látinn taka pokann þrátt fyrir fyrsta sigur sinn og einnig fyrsta sigur Renault síðan 1983. Fyrir lokakeppnirnar á því tímabili gekk hann til liðs við Toyota og hefur ekið fyrir þá síðan.
Trulli hefur tekið þátt í 164 keppnum, og hefur hann unnið 1 sigur og 3 ráspóla.
2006 endaði hann í 13. sæti í keppni ökumanna með 12 stig, en hans besti árangur er 6. sæti með Renault liðinu 2004.
Trulli verður 33 ára í júlí.
Tilraunaökuþórar Toyota verða Frakkinn Franck Montagny (sem keppti hluta úr tímabili fyrir Super Aguri á líðandi ári), og Japanarnir Kohei Hirate og Kamui Kobayashi.
TF107 bíll Toyota liðsins verður sýndur í Köln í Þýskalandi 12. janúar.
Red Bull
Red Bull keppnisliðið er nú að hefja sitt 3. tímabil í Formúlunni, en þeir keyptu Jaguar liðið (áður Stewart) árið 2004 og mættu til leiks 2005.
Þeir hafa tekið þátt í 36 keppnum, og er besti árangur þeirra í keppni 3. sæti, og 4. sæti í tímatöku.
2006 lauk Red Bull keppni í 7. sæti með 16 stig.
Eftir að hafa verið knúnir af Ford Cosworth 2005 og Ferrari 2006, þá munu þeir nota Renault vélar á komandi tímabili.
Skoski ökuþórinn David Coulthard mun verða þess heiðurs aðnjótandi að verða aldursforseti Formúlunnar í ár, en hann er fæddur í mars 1971 og verður því 36 ára í mars.
Coulhard hóf þátttöku með Williams liðinu 1994 undir afar leiðinlegum kringumstæðum, en honum var falið að aka í stað hins látna Ayrton Senna á móti Nigel Mansell. 1995 keppti hann síðan fullt tímabil með Williamsliðinu. Á árunum 1996-2004 keppti Coulthard fyrir McLaren liðið, og gekk síðan til liðs við nýja Red Bull liðið 2005.
Alls hefur Coulthard því tekið þátt í 212 mótum og hefur unnið 13 sigra og 12 ráspóla.
2006 varð Coulthard í 13. sæti í keppni ökumanna með 14 stig, en hans besti árangur er 2. sæti með McLaren árið 2001.
Ástralinn Mark Webber gengur til liðs við Red Bull liðið fyrir árið 2007. Hann hóf þátttöku árið 2002 með Minardi liðinu, en keppti 2 tímabil með Jaguar liðinu, og hefur síðan keppt síðustu tvö keppnistímabil með Williams liðinu.
Hann hefur tekið þátt í 88 mótum og er besti keppnisárangur hans 3. sæti, og 2. sæti í tímatöku.
Webber verður 31 árs í ágúst.
Tilraunaökuþórar Red Bull liðsins hafa ekki verið tilkynntir þegar þessi grein var skrifuð.
Williams
Williams liðið í núv. mynd var stofnað árið 1975, en Frank Williams mun þó hafa séð um að leigja og kaupa keppnisbíla 1967-74.
Williams liðið hefur tekið þátt í 494 keppnum, og mun því kanadíski kappaksturinn 2007 verða 500. kappakstur liðsins í núv. mynd. Williams hefur 9 sinnum unnið keppni bílasmiða (1980-81, 1986-87, 1992-94 og 1996-97) og 7 sinnum keppni ökumanna (1980, 1982, 1987, 1992-93 og 1996-97). Eru keppnissigrarnir orðnir 113 og ráspólarnir 125.
2006 var versti árangur Williams frá árinu 1978, en þeir luku tímabilinu í 8. sæti með 11 stig.
Eftir að Ford-Cosworth vélarnar hurfu úr Formúlunni eftir liðið keppnistímabil, þá er Williams liðið komið með samning við Toyota um vélar fyrir næsta ár.
Ungi þýsk/finnski ökuþórinn Nico Rosberg (sonur finnska heimsmeistarans frá 1982, Keke Rosberg) er nú að hefja sitt 2. tímabil með Williams liðinu.
Tók hann þátt í öllum 18 keppnum síðasta tímabils, en sem stendur er besti árangur hans í keppni 7. sæti, og 3. sæti á ráslínu.
2006 endaði hann tímabilið í 17. sæti á stigatöflunni með 4 stig.
Rosberg verður 22 ára í júní.
Austurríski ökumaðurinn Alexander Würz er að hefja sitt fyrsta fulla keppnistímabil síðan árið 2000. Würz hóf keppni í Formúlu 1 þegar hann leysti af landa sinn Gerhard Berger hjá Benetton liðinu sumarið 1997. 1998, 1999 og 2000 keppti hann síðan full keppnistímabil hjá Benetton. 2001-05 var Würz tilraunaökuþór hjá McLaren, og ók m.a. eina keppni vorið 2005 þegar hann leysti af JP Montoya. 2006 varð hann tilraunaökuþór Williams liðsins og mun hefja keppni með þeim nú í vor.
Alls hefur Würz keppt í 53 mótum, og er hans besti árangur 3. sæti í keppni og 5. sæti í tímatöku.
Besti árangur Würz í stigakeppni ökumanna var 7. sæti árið 1998 með 17 stig.
Würz verður 33 ára í febrúar.
Nýi FW29 keppnisbíll Williamsliðsins verður frumsýndur 2. febrúar í höfuðstöðvum Williamsliðsins í Crove í Englandi.
Toro Rosso
B-lið Red Bull hóf keppni 2006 eftir að Red Bull keypti upp Minardi smáliðið, sem hafði þá keppt með litlum árangri síðan 1985.
Niðurstaðan í fyrra varð 9. sæti í keppni bílasmiða með 1 stig.
Vélin mun nota Ferrari vélar í stað Ford Cosworth véla á komandi tímabili.
Liðið hefur enn ekki tilkynnt ökumenn sína, en þeir sem hafa verið nefndir sterklega eru ökumennirnir 2006; Ítalinn Vitantonio Liuzzi og Bandaríkjamaðurinn Scott Speed, en einnig hafa verið nefndir Portúgalinn Tiago Monteiro sem ók fyrir Midland á síðasta tímabili, hollenski ökuþórinn Robert Doornbos og Frakkinn Sebastien Bourdais (CART meistari).
Ekki hefur verið ákveðið hvenær bíll Toro Rosso verður frumsýndur, en bíllinn mun bera nafnið STR02.
Spyker
Segja má að Spyker liðið sé nýjasta liðið í Formúlunni, en hollenski Spyker fjárfestingahópurinn keypti upp Midland liðið í september. Midland liðið hóf keppni 2006 eftir að hafa verið stofnað á grunni einkaliðs Eddie Jordan, sem hafði keppt í F1 frá 1991. Spyker liðið keppti undir nafninu Spyker Midland í 3 seinustu mótunum án teljandi árangurs.
Midland / Spyker liðið endaði 2006 tímabilið í 10. sæti án stiga.
Christian Albers frá Hollandi verður áfram hjá liðinu 2. árið í röð. Hann hóf keppni með Minardi 2005, en skipti árið eftir yfir til Midland.
Hann hefur nú keppt í 37 keppnum, og er hans besti árangur 5. sæti í farsakeppninni í Bandaríkjunum 2005 þar sem aðeins 6 bílar hófu keppni. Eru það einu stig Albers hingað til.
Albers var skráður í 22. sæti í keppni ökumanna 2005 með ekkert stig, og 19. sæti 2005 með 4 stig.
Albers verður 28 ára í apríl.
Þýski ökuþórinn Adrian Sutil er nýr í Formúlunni. Hann var tekinn framyfir Portúgalann Tiago Monteiro, sem keyrt hafði með Jordan og síðar Midland liðinu seinustu tvö tímabil.
Sutil verður 24 ára í janúar.
Enn hefur ekki verið tilkynnt um tilraunaökuþóra ársins 2007.
Ekki hefur verið ákveðið hvar og hvenær nýi Spyker bílinn verður frumsýndur.
Super Aguri
Lítið lið með stór áform. Super Aguri liðið, sem kennt er við stjórnanda og einn eiganda liðsins, Japanann Aguri Suzuki (fyrrum ökumann í Formúlu 1), hóf þátttöku í Formúlu 1 á árinu.
Þrátt fyrir að vera nýtt lið frá grunni og að hafa keppt með 4 ára gamlan undirvagn, þá verður að telja árangurinn árið 2006 frekar lítinn, en liðið dekkaði síðasta sætið, án stiga.
Japanski ökuþórinn Takuma Sato verður áfram hjá Super Aguri liðinu sem aðalökumaður. Hann hóf keppni árið 2002 með Jordan liðinu, var síðan tilraunaökuþór árið 2003 með BAR, en ók í seinustu keppni ársins þegar að Jacques Villeneuve rauk í fússi fyrir seinasta kappaksturinn. Keppti hann fyrir BAR liðið 2004 og 2005.
Sato hefur tekið þátt í 69 keppnum, en hans besti keppnisárangur er 3. sæti, og 2. rásstaður úr tímatöku.
2006 var Sato skráður 23. í stigakeppni ökumanna, án stiga. Hans besti árangur er 8. sætið árið 2004 með BAR liðinu, þegar hann fékk 34 stig.
Sato verður þrítugur í janúar.
Bretinn Anthony Davidson var tilraunaökuþór fyrir BAR og síðar Honda 2001-06. Hann hefur keppt þrisvar, tvö skipti með Minardi þegar hann leysti af Alex Yoong árið 2002 (sem var í tímabundnu banni eftir að hafa mistekist að ná tímatöku þrisvar á árinu) og 1 skipti með BAR liðinu 2005 þegar hann leysti af Takuma Sato sem var meiddur. Davidson lauk engum þessara keppna.
Davidson verður 28 ára í apríl.
Tilraunaökuþórar Super Aguri verða hollenski ökuþórinn Giedo van der Garde og Japaninn Sakon Yamamoto (sem keppti fyrir Super Aguri á síðari hluta keppnistímabilsins í ár).
Frumsýning á Super Aguri bílnum hefur ekki enn verið dagsett.
——
Samantekt
Þar með er staðan á keppnisliðunum fyrir komandi tímabil, eins og hún stendur, komin á hreint.
Helstu breytingar á ökumannsmarkaðnum (rétt tímaröð frétta):
* Fernando Alonso er farinn til McLaren eftir 5 ár hjá Renault.
* Alex. Würz mun snúa aftur til F1 eftir langt hlé, og mun keppa með Williams.
* Mark Webber er farinn frá Williams til Red Bull.
* Heikki Kovalainen hefur keppni í F1 og kemur í stað Fernando Alonso hjá Renault.
* Michael Schumacher er hættur keppni eftir 7 heimsmeistaratitla, 91 sigur og 250 keppnir.
* Kimi Räikkönen er farinn frá McLaren til Ferrari og mun koma í stað Michael Schumacher.
* Anthony Davidson hefur verið ráðinn 2. ökumaður Super Aguri við hlið Takuma Sato.
* Lewis Hamilton hefur verið ráðinn 2. ökumaður McLaren.
* Adrian Sutil hefur verið ráðinn 2. ökumaður Spyker, í stað Tiago Monteiro.
* Tiago Monteiro er farinn frá Spyker liðinu.
Helstu breytingar hjá keppnisliðunum:
* Ross Brawn, tæknistjóri Ferrari, hefur tekið sér leyfi frá störfum út 2007 tímabilið eftir 10 tímabil hjá Ferrari.
* Williams verður knúið af Toyota vélum 2007 í stað Ford Cosworth vélanna.
* Nafni Midland liðsins hefur að fullu verið breytt í Spyker. Mun Spyker notast við Ferrari vélar í stað Toyota véla.
* Hollenski bankarisinn ING verður aðalstyrktaraðili Renault liðsins í stað tóbaksframleiðandans Mild Seven.
* AT&T verður nýr aðalstyrktaraðili Williams liðsins.
* Red Bull hefur ákveðið að Toro Rosso muni notast við Ferrari vélar og Red Bull við Renault vélar.
Helstu breytingar á keppnum:
* Japanski kappaksturinn, sem fór fram á Suzuka brautinni 1987-2006, mun nú flytjast á endurbyggða Fuji brautina, en þar var keppt í japanska kappakstrinum í F1 1976 og 1977.
* San Marínó kappakstrinum hefur verið kúplað útaf keppnisdagatalinu 2007.
* Evrópukappaksturinn verður ekki haldinn 2007. Munu Hockenheim og Nürburgring brautirnar skiptast á um að halda þýska kappaksturinn, og mun Nürburgring halda kappaksturinn 2007.
* Belgíski kappaksturinn snýr aftur á dagatalið, og verður sem fyrr haldinn á Spa-Francorchamps.
——
Heimildir:
* 2007 Formula One Season – http://en.wikipedia.org/wiki/2007_Formula_One_Season, og tengdar síður
* Mbl.is – Formúla 1 – http://www.mbl.is/mm/sport/formula
* Stats F1 – http://www.statsf1.com
* The Official Formula 1 Website – http://www.formula1.com
MEÐ ALLAN FYRIRVARA UM BREYTINGAR!