Clay Regazzoni (f. 05.09.1939 - d. 15.12.2006) Gian-Claudio Giuseppe Regazzoni
fæddur 5. september 1939 – látinn 15. desember 2006

Fyrrum Formúla 1 ökumaður, Svisslendingurinn Clay Regazzoni, lést í dag í umferðarslysi nálægt Parma á Ítalíu þegar að bifreið hans skall framan á vörubifreið sem kom úr gagnstæðri átt.

Regazzoni er uppalinn í ítalska hluta Sviss, rétt við landamærin að Ítalíu, og var álitinn Ítali af þarlendum mönnum. En þrátt fyrir það þá hélt hann fast í svissneska ríkisfangið sitt.

Regazzoni hóf keppni í Formúlu 1 með Ferrari liðinu á miðju keppnistímabilinu 1970. Hann náði 4. sæti í fyrstu keppninni sinni, og vann sigur á Monza í 5. keppninni sinni. Þrátt fyrir að keppa aðeins í 8 keppnum af 13, þá varð Regazzoni í 3. sæti í heildarstigakeppninni það árið.

Eftir að hafa keppt fyrir Ferrari 1971 og 1972, þá flutti Reggazzoni sig yfir til BRM liðsins 1973, og hitti þar fyrir Niki Lauda.

Eftir afleitt tímabil með BRM, þá voru Niki Lauda og Regazzoni báðir ráðnir til Ferrari af hinum nýkjörna liðsstjóra Luca C. di Montezemolo.

1974 var ákveðið að Niki Lauda myndi verða fyrirliði Ferrari liðsins, en hann stóðst Regazzoni þó engan veginn snúning, og fór tímabilið svo að Regazzoni rétt tapaði titlinum til Emerson Fittipaldi með 3 stigum.

1975 og 1976 gekk Regazzoni ekkert alltof vel, en vann 2 sigra á sitthvoru árinu. Í lok tímabilsins 1976 ákváðu Ferrari menn að ráða ekki Regazzoni aftur.

1977 og 1978 keppti hann fyrir smáliðin Ensign og Shadow, með litlum sem engum árangri, og virtist augljóst að ferill hans í F1 væri að lokum kominn.

En Frank Williams ákvað óvænt að ráða Regazzoni til Williams liðsins fyrir árið 1979 við hlið Ástralans Alan Jones. Williams liðið var enn að losa sig við nýjabrumið og gekk því brösuglega í upphafi tímabilsins. En Regazzoni vann sér þó eitt til frægðar: hann vann fyrsta sigur Williams liðsins, þegar hann vann breska kappaksturinn með yfirburðum. Endaði hann tímabilið í 5. sæti í keppni ökumanna.

En í lok ársins 1979 var Regazzoni skipt út fyrir Argentínumanninn Carlos Reutemann, og fór Regazzoni því aftur til Ensign.

Í Vestur-bandaríska kappakstrinum 1980, 4. keppni tímabilsins, biluðu bremsurnar á Ensign bíl Regazzoni á framkafla brautarinnar, og klessti hann á vegg við lok kaflans. Hann lifði slysið af, en hlaut svo slæm meiðsli á mænuna að Regazzoni lamaðist fyrir neðan mitti. Formúlu 1 ferill hans var á enda.

Þetta kom þó ekki í veg fyrir að hann gæti stundað annars konar kappakstur; hann tók þátt í París-Dakar rallinu á sérútbúnum bíl. Einnig tók hann þátt í ralli á gömlum kappakstursbílum, og seinni árin hefur hann verið álitsgjafi um Formúlu 1 hjá ítölskum sjónvarpsstöðvum.

Hann gaf út eina ævisögu: E’ questione di cuore, sem útleggst sem ,,Þetta er hjartans mál”.

Helstu staðreyndir um þátttöku hans í Formúlu 1:
Fjöldi keppna: 132 (fyrsta: Zandvoort 1970, seinasta: Long Beach 1980).
Fjöldi heimsmeistaratitla: 0 (besti árangur: 2. sæti 1974).
Fjöldi sigra: 5
* Ítalski kappaksturinn 1970
* Þýski kappaksturinn 1974
* Ítalski kappaksturinn 1975
* Vestur-bandaríski kappaksturinn 1976
* Breski kappaksturinn 1979
Fjöldi skipta á verðlaunapalli: 28 sinnum
Fjöldi ráspóla: 5
Fjöldi hröðustu hringja: 15
Fjöldi stiga: 212
Fjöldi keppna:

—-
Hvíl í friði, Clay Regazzoni.
Fyrir hönd stjórnenda /formula1:
[Ultravox]



Heimildir:
GrandPrix.com. Clay Regazzoni. Sótt þann 16. des. 2006 af slóðinni: http://www.grandprix.com/gpe/drv-regcla.html.
Mbl.is – Formúla 1. Regazzoni ferst í slysi. Sótt þann 16. des. 2006 af slóðinni: http://www.mbl.is/mm/sport/formula/frett.html?nid=1241836.
Stats F1. Clay Regazzoni. Sótt þann 16. des. 2006 af slóðinni: http://www.statsf1.com/drivers/fiche.asp?IdPilote=439&LG=2.
Wikipedia. Clay Regazzoni. Sótt þann 16. des. 2006 af slóðinni: http://en.wikipedia.org/wiki/Clay_Regazzoni.