Af fréttum af Formúlu 1 vef Morgunblaðsins mátti lesa eftirfarandi frétt fyrir 3 vikum síðan:
[Morgunblaðið, 17. nóvember 2006, http://www.mbl.is/mm/sport/formula/frett.html?nid=1235637].
Bourdais gefur formúlu-1 upp á bátinn
Franski ökuþórinn Sebastien Bourdais sem á dögunum vann systurkeppni formúlu-1 í Bandaríkjunum - ChampCar mótaröðina - þriðja árið í röð segist hafa gefið upp allar vonir um að eiga eftir að keppa í formúlunni.
Bourdais er samningsbundinn Newman-Haas liðinu út næsta ár en segist samt tvímælalaust munu keppa í sólarhringskappakstrinum í Le Mans einnig.
„Ég held það sé úr sögunni,“ svaraði hann hann spurningu franska íþróttablaðsins L'Equipe um tilraunir sínar til að fá vinnu í formúlu-1.
„Það er svekkjandi en fullt af færum ökuþórum hafa aldrei komist að í formúlu-1 … það má alltaf segja að það sé ósanngjarnt, en svona er formúla-1, hún hefur aldrei verið sanngjörn,“ segir Bourdais.
Bourdais varð heimsmeistari í Formúlu-3000 árið 2002 og hefur síðan keppt með góðum árangri í ChampCar; varð annar í keppni ökuþóra fyrsta árið en síðan meistari 2004, 2005 og 2006. Hann sinnti bílprófunum fyrir Arrow 2002 og var boðið starf keppnisþórs hjá liðinu árið 2003 en það fór á hausinn í árslok 2002 og mætti því aldrei til leiks 2003.
Hann segir við L'Equipe að mörg lið hafi viljað fá hann sem tilraunaþór en án þess að geta veitt neinar tryggingar fyrir því að það myndi síðar leiða til stöðuhækkunar í starf keppnisþórs. „Það var ætlast til þess að ég gæfi allt frá mér sem ég hafði byggt upp á fjórum árum [í Ameríku] fyrir kannski eitthvað,“ segir Bourdais.
Hann er fæddur í borginni Le Mans sem sólarhringskappaksturinn sögufrægi er kenndur við. Kveðst hann ekki hafa áhuga á að keppa í bandaríska NASCAR-kappakstrinum, en þangað er Juan Pablo Montoya farinn úr formúlu-1. Segist Bourdais frekar vilja einbeita sér að ChampCars og þolkappakstri eins og í Le Mans.
Bourdais á leið til sigurs á Gullströndinni við Brisbane en nokkur mót í ChampCar eru haldin utan Bandaríkjanna.
ap
„Ég hef alltaf sagt að ég muni keppa í Le Mans öll þau ár sem mér er það kleift. Þetta er kappakstur sem ég vil vinna. Ég vona að viðræður við Peugeot leiði til einhvers en ekkert hefur verið ákveðið enn sem komið er,“ segir Bourdais sem undanfarin ár hefur ekið með Pescarolo-liðinu í Le Mans. Í ár hafði hann sem liðsfélaga m.a. Sebastien Loeb heimsmeistara í ralli.
Út úr þessari frétt er ekki hægt að skilja neitt annað en hann hafni Formúlu 1 algjörlega nema hann hafi tryggingu fyrir því að hann muni komast að sem aðalökumaður.
En fljótt skipast veður í lofti, og á Formúlu 1 vef Moggans mátti í gær sjá frétt þess efnis að Bourdais væri ekki alveg búinn að gefa Formúluna upp á bátinn:
[Morgunblaðið, 11. desember 2006, http://www.mbl.is/mm/sport/formula/frett.html?nid=1240964].
Toro Rosso prófar Bourdais
Franski ökuþórinn Sebastien Bourdais, meistari í bandarísku mótaröðinni ChampCar þrjú ár í röð, fær að spreyta sig hjá formúluliði Toro Rosso við bílprófanir í Jerez á Spáni í vikunni. Hann hefur um árabil reynt að komast til starfa í formúlunni.
Toro Rosso hefur ákveðið að skoða Bourdais og því fengið hann til að sinna tilraunaakstri í þrjá daga frá og með miðvikudeginum. Orðrómur segir að hann sé til skoðunar með tilliti til ráðningar sem keppnisþór á næsta ári.
Liðið hefur hvorki staðfest áframhaldandi ráðningu Vitantonio Liuzzi né Scott Speed þótt talsmenn þess hafi margsinnis sagt að ólíklega yrðu gerðar breytingar á skipan ökuþóra liðsins.
Þá er sérstaklega eftir því tekið að Toro Rosso afhenti engin ökuþóranöfn er það skilaði í síðustu viku þátttökutilkynningu fyrir keppni næsta árs til Alþjóðaakstursíþróttasambandsins (FIA).
Bourdais er áfram samningsbundinn Newman-Haas liðinu í ChampCar en í þeim samningi er klásúla sem leysir hann undan samningnum sé honum boðið starf keppnisþórs í formúlu-1.
Tilraunaakstur Bourdais kemur mjög á óvart þar sem hann sagðist nýlega í stóru viðtali við franska íþróttadagblaðið L'Equipe búinn að afskrifa það að fá starf keppnisþórs í formúlu-1. Hann sagðist margsinnis hafa fengið boð um starf tilraunaþórs en engu tekið því í engu tilvikanna hafi viðkomandi treyst til að lofa því að starf keppnisþórs fylgdi ári seinna.
Bourdais vann á sínum tíma heimsmeistaratitil ökuþóra í formúlu-3000 áður en hann leitaði fyrir sér í hinni bandarísku systurkenni formúlunnar.
Hér er alveg ljóst að um algjöran viðsnúning er að ræða. En Bourdais hefur litist greinilega það vel á tilboð Scuderia Toro Rosso að það væri vel þess virði að reyna. Rennur það stoðum undir það að við munum jafnvel sjá hann sem ökumann hjá Toro Rosso liðinu á komandi tímabili. En þá þykir einnig ljóst að Vitantonio Luizzi og Scott Speed eru langt frá því að vera öruggir með sæti sín eins og talið hefur verið fram til þessa.
Sébastien Bourdais ökumaður fyrir Toro Rosso? Sjáum hverju áfram líður í þessu máli. Fyrir mitt leyti litist mér vel á að fá hann inn í Formúluna.