Ron Dennis ekki búinn að gefa upp vonina.
Ron Dennis yfirmaður keppnisliðs MacLaren er ekki búinn að gefa upp alla von um að Hakkinen nái að vinna heimsmeistaratitilinn þetta árið. Ron bendir á að það séu 20 stig eftir í pottinum og að allt sem Hakkinen þarf að gera sé að vinna báðar keppnirnar þ.e. í Japan og Malasíu. “Hann er sterkur og einbeittur einstaklingur, það mun ekki breytast. Það hljómar e.t.v. eins og að það sé óvinnandi vegur en við munum mæta á brautirnar ákveðnir í að vinna”,sagði Ron. Það er hins vegar eitt atriði sem Ron virðist hafa gleymt en það er sú staðreynd að Michael Schumacher hefur unnið 7 keppnir á þessu ári en Hakkinen einungis 4. Þannig að ef Hakkinen vinnur næstu tvær keppnir og MS verður í öðru sæti þá verða þeir jafnir að stigum en MS verður heimsmeistari á fleiri sigrum. Hakkinen þarf því góða hjálp frá DC ætli þetta að ganga eftir. “Formúla 1 er ekki sport fyrir viðkvæmar sálir, við erum í stöðugri rússibanaferð og við getum ekki vonað að mistök annara hjálpi okkur til að vinna titilinn.” Sagði Ron að lokum.