Formula 1 - Grand Prix
Þrátt fyrir að hin eiginlega Formúlu 1 keppni hafi hafist árið 1950 má rekja rætur hennar mun lengra aftur í tíma.
Um aldamótin 1900 voru þeir vegir sem keppt var á í Evrópu aðallega tjargaður sandur eða jafnvel viður. Í opnum bílum brunuðu ökumennirnir áfram á u.þ.b. 40 km meðalhraða, oft dögum saman. Vegirnir voru langir og hraðinn skipti ekki endilega öllu máli, því líkt og í dag var það áreiðanleiki ökutækjanna sem gerði gæfumuninn. Þær miklu vegalengdir sem keppt var á í þá daga gengu oftar en ekki af bílunum dauðum. Dekkin tættust upp á nokkrum kílómetrum og þekkt eru dæmi þess að þurft hafi að skipta um dekk tíu sinnum á nokkur hundruð kílómetra leiðum.
Fyrsta keppnin sem notaði heitið ,,Grand Prix“ var haldin árið 1901 við Le Mans í Frakklandi og var 1100 km löng. Þá fylgdu vélvirkjar ökumönnunum alla leið og þjónustuðu bílana við vegarkantinn eftir þörfum. Það var svo árið 1908 á Sikiley á Ítalíu sem ,,pytturinn” kom til sögunnar. Grafnir voru grunnir skurðir við vegarkantana sem reyndust mikil bót fyrir vélvirkjana og gáfu þeim tækifæri til þess að stytta tímann sem tók að skipta um dekk, auk þess sem auðveldara var að komast að hjólabúnaðinum öllum.
Meðan styrjaldir voru háðar í Evrópu var ekki mikið um kappakstur þar, en margir ökumenn létu það ekki aftra sér og fóru til Ameríku í Indianapolis 500 kappaksturinn. Þó má nefna það að í Monaco árið 1933 var í fyrsta sinn ákveðin rásröð í keppni með tímatökum. Tækniframfarir urðu þó ekki stöðvaðar og bílarnir urðu hraðari og ,,öruggari" (um þetta eru skiptar skoðanir).
Eftir að seinni heimsstyrjöldinni lauk varð mikil fjölgun keppna í Evrópu og ökumenn snéru aftur heim. Þjóðverjar stóðu framarlega á sviði bílaframleiðslu þar sem Audi (Auto Union) og Mercedes Benz höfðu grætt gríðarlega á fjárstuðningi frá þriðja ríkinu á stríðstímum sem Adolf Hitler fyrirskipaði. Þessi fyrirtæki voru þau fyrstu til þess að nýta sér tækni loftflæðis (aerodynamics) auk þess sem oft voru kyndugar blöndur á eldsneytistanknum.
Formula 1 var upprunalega nefnd Formula A en það stóð þó ekki lengi. Og árið 1950 varð sú stofnun sem Formula 1 er að veruleika. FIA (Federation Internationale de l’Automobile) sem er alþjóða samband ökuíþrótta kynnti áætlanir um viðurkennda heimsmeistarakeppni. Þann 10. apríl sama ár var haldin á Silverstone brautinni í Bretlandi fyrsta F1 keppni til heimsmeistaratitils.
Eftir það var aldrei litið um öxl.
Þrátt fyrir byltingarkenndar breytingar og að tæknin í F1 sé í dag á við geimferðaáætlun NASA er algengt að fjórðungur bíla detti úr keppni í hvert sinn sem keppt er, hvort sem um er að ræða bilanir eða ökumannsmistök. Það á því vel við enn í dag þetta þekkta orðatiltæki úr formúlunni; til þess að vinna þarftu fyrst að ná í mark!