Það er orðið ljóst að ekki verður sýnt beint frá Magny Cours í Frakklandi næstkomandi sunnudag. Sjónvarpið ætlar hins vegar að sýna keppnina kl. 14:30 og verður öll keppnin sýnd og væntanlega blaðamannafundurinn líka. Ég hef rætt við íþróttafréttamenn Sjónvarpsins og hafa þeir tjáð mér að þeir hafi reynt að fá þessu breytt en ekki tekist. Samkvæmt heimildarmanni mínum hjá einum af kostunaraðilum Formúlu 1 útsendinganna, þá horfa allt að 100.000 manns á beinar útsendingar Sjónvarpsins frá Formúlu 1. Það er því nokkuð ljóst að það verða margir fyrir vonbrigðum vegna þessarar ráðstöfunar. Jafnframt verður að hafa það í huga að ef Formúlan yrði sýnd beint þá gæti það haft áhrif á aðsókn að Kristnitökuhátíðinni.
Það hefur nokkuð borið á því að áhugamenn um Formúlu 1 hafi verið að hringja í íþróttafréttamenn Sjónvarpsins og ausið úr skálum reiði sinnar vegna þessa máls. Ég vil vekja athygli ykkar á því að það er alls ekki við íþróttafréttamennina að sakast. Ég hef vitneskju um að þeir hafi beitt sér fyrir því af fullum þunga að fá að senda beint frá keppninni og jafnvel gengið svo langt að óska eftir því að koma sjónvarpsmerkinu eftir öðrum leiðum út til okkar. Sú vinna hefur því miður ekki borið ávöxt. Ég vil benda áhugamönnum Formúlu 1 á að ef þeir vilja koma umkvörtunum sínum á framfæri þá er best að koma þeim til útvarpsráðs því það er eflaust ákvörðunaraðili í þessu máli.
Ég hef reynt að fá sjónvarpsmerkið sent í kvikmyndahús til að sýna það síðan á breiðtjaldi, en það hefur ekki tekist. Réttindamál varðandi útsendingar á sjónvarpsefni eru afar flókin og telja menn enga heimild vera fyrir slíkri sendingu í samningi Sjónvarpsins. Auk þess sem semja þyrfti við íslenska kostunaraðila Formúlu 1 útsendinganna um slíka ráðstöfun. Til viðbótar þessu þá myndi þessi lausn ekki leysa vanda fjölmargra aðdáenda Formúlu 1.
Við verðum því að lúta í lægra haldi núna og grafa höfuðið í sand á meðan á keppninni stendur ytra og reyna síðan að ímynda okkur að við séum að horfa á beina útsendingu þegar kl. slær 14:30 á sunnudaginn næstkomandi. Það er þó hugsanlegt að þeir sem hafa aðgang að gerfihnattadiski geti náð <A HREF=”http://www.rtl.de/default_framing.asp?page=/programme/start/main.htm”>RTL</A> þýskri sjónvarpsstöð sem mun gera keppninni full skil.