Alberto Ascari, sem var einn besti ítalski ökumaður sem uppi hefur verið fæddist í Mílanó árið 1918. Faðir hans var Antonio Ascari sem var toppökumaður á sínum tíma. Antonio Ascari dó í kappakstri í Frakklandi þegar Alberto Ascari hafði rétt náð sjö ára aldri. Hann var ákveðinn frá þeirri stundu í því að feta í fótspor föður síns. Alberto hóf feril sinn í götubílakappakstrinum Mille Miglia á Ferrari bíl. Hann keppti fyrir Ferrari í fjórum af sjö mótum á árinu 1950 og hafnaði tvisvar í öðru sæti, á Monza og í Mónakó. Ári síðar keyrði hann til fyrsta sigurs síns á Nürburgring og fylgdi því svo eftir á Monza. Þetta ár varð hann í öðru sæti í keppnini um heimsmeistaratitilinn. Árið 1952 var hans ár og varð hann þá heimsmeistari í fyrsta sinn og einnig fyrsti meistari Ferrari í Formúlu 1. Þess má geta að hann sigraði með yfirburðum en hann náði 36 stigum, sem var hámarksstigafjöldi á þeim tíma því aðeins voru tekin fjögur bestu úrslit, en Ascari sgiraði í sex.
Ascari sigraði aftur árið eftir en nú sigraði hann fimm keppnir. Þetta ár var meiri samkeppni því Juan Manuel Fangio og Giuseppe Farina voru rétt á eftir honum. Næsta keppnistímabil skipti hann mikið um keppnislið og ók fyrst fyrir Maserati, síðan Ferrari og loks Lancia. Ascari virtist hafa fundið sig hjá Lancia og samdi því um að keyra hjá liðinu keppnisárið 1955. Það keppnisár var örlagaríkt fyrir Ascari því hann keyrði útí höfnina í Mónakó. Sem betur fer slapp hann með vægt taugaáfall og nefbrot. Ascari var að horfa á æfingaakstur fyrir sportbílakeppni fjórum dögum eftir slysið þegar hann fékk að keyra nokkra hringi í bíl góðs vinar síns. Ascari kastaðist útúr bílnum þegar hann lenti á kant og bíllinn valt. Hann lést svo stuttu seinna, 37 ára gamall.
Fullt Nafn: Alberto Ascari
Fjöldi keppna: 32
Fjöldi sigra: 13
Fjöldi ráspóla: 14
Verðlaunasæti: 19
Heimsmeistaratitlar: 2
Heimild:
Bókin Formúla 1 - Saga formúlu 1 kappakstursins