Ég var í kaffi hjá ömmu minni og kveikti á sjónvarpinu og varð þá vitni að þessum atburði, sem mér fannst bæði mjög sorglegur og mjög skrítinn. Ég hef lítið fylgst með Formúlu 1 síðastliðin tvö ár vegna einstefnu Ferrari, samt er ég Ferrari maður. Þetta verður vonandi til þess að lífga upp Formúluna hjá mér og öðru fólki sem hefur misst áhugan :). En í þessari grein ætla ég að taka smá samantekt af kappakstrinum í Indianapolis og fara í báðar hliðar málsins.
Svona fyrir þá sem ekki vita um hvað málið snýst:
Á æfingu fyrir kappaksturinn í Indianapolis sprakk dekk á Toyota bíl Ralf Schumachers í hröðustu beygju Formúlu 1. Hann fékk heilahristing og því bönnuðu læknar honum að keppa. Á æfingu fyrir tímatöku sprakk svo aftur á sama bíl, nú hjá ökuþórnum Richardo Zonta. Í kjölfarið gaf franska dekkjaverksmiðjan Michelin, sem skaffar 7 keppnisliðum Formúlu 1 dekk, út þá yfirlýsingu að dekkin væru ekki örugg og ráðlagði því liðunum 7 að keppa ekki í Indianapolis. Þá var gripið til þess ráðs að funda með brautarstjórnendum, FIA og keppnisliðunum til að reyna að finna málamiðlun. Niðurstaðan eftir fundinn var neikvæð. Keppnisliðin 7 óku svo aðeins upphitunarhringinn og fóru svo beint inn í bílskúr því þau treystu ekki dekkjunum og vildu ekki leggja ökuþóra sína í hættu.
Með þessu er var mjög líklega verið að hamra síðasta naglann í kistu Formúlu 1 í BNA. Formúla 1 hefur átt erfitt uppdráttar þar og mikil auglýsinga herferð fyrir kappaksturinn var unnin fyrir gýg og 120.000 áhorfendur voru sviptir kappakstri.
Hverjum á að kenna um?
Sumir vilja kenna Ferrari um, því þeir samþykktu ekki að setja hlekk á brautina til að hægja hámarkshraðann í hröðustu beygjunni. Öll hin liðin samþykktu það. En til varnar því er tvennt.
1.lagi: FIA þvertóku algjörlega fyrir þessa hugmynd og hefðu ekki samþykkt hana þótt Ferrari hefðu samþykkt hana.
2.lagi: Af hverju á Ferrari að samþykja eitthvað sem hefur með þeirra hagsmuni að gera? Bridgestone mætti með keppnishæf dekk, ekki Michelin, eiga þá Ferrari að fá að kenna á því?
Aðrir vilja kenna FIA um því að þeir neituðu algjörlega að sveigja reglurnar eða semja um þetta mál. Þeir hefðu nú mátt vera aðeins meira samvinnuþýðari. Þeir gjörsamlega neituðu öllum málamiðlunar hugmyndum og brugðust svo við með því að boða liðin sem ekki kepptu til yfirheyrslu í París 29.júní. Eftir þetta atvik hefur Max Morsley forseti FIA verið gagnrýndur harðlega og vilja sumir að hann segi af sér.
Michelin voru mjög hugrakkir með því að telja liðin af því að keppa, með öðrum orðum þá AUGlÝSTU þeir galla í vöru frá sér. Eftir keppnina skelltu þeir svo allri skuldinni á sig, og sögðu þetta alfarið gáleysi hjá sér að nota sömu dekkjablöndu og fyrir kappaksturinn í Barcelona. Strax eftir kappakturinn lækkuðu hlutabréf í Michelin um 2,5%.
sumir telja að Michelin liðin hefðu getað keppt, ef þau hefðu bara lækkað hraðann í lokabeygjunni. Þeir neituðu hinsvegar að lækka hraðann hjá sér því þau töldu þá að Bridgestone liðin myndu hafa yfirburði. Ég tel hinsvegar að þau hefðu alveg getað keppt og trúi því að þetta hafi verið einstakt atvik í Toyota bílnum, því að þeir voru að nota minni loftþrýsting í dekkjunum en Michelin hönnuðu dekkin fyrir. Aftur á móti þá var þetta eflaust mótmæli hjá Michelin liðunum, til þess að setja út á reglurnar hjá FIA (sem eru svoldið asnalegar).
Þess má geta að Michelin liðin buðu Bridgestone liðunum að fara fremst á ráslínu og buðust til þess að keppa án stiga, bara ef þrengingin hefði verið sett á síðustu beygjuna.
Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra í bili, ætla að leyfa ykkur aðeins að melta þetta og mynda ykkur skoðun á málinu. Ef þið viljið ítarlegri upplýsingar þá bendi ég ykkur á http://mbl.is/mm/sport/formula/.
Allavega þá varð þetta atvik til þess að ég mun horfa á næsta Formúlu 1 kappakstur.
Segið svo ykkar skoðun og segið með hverjum þið standið í þessu máli. Allavega þá stend ég eiginlega ekki með neinum :).
Smá útúrdúr: BMW eru búnir að yfirtaka Sauber liðið. http://mbl.is/mm/sport/formula/frett.html?nid=1144861
Heimildir: http://mbl.is/mm/sport/formula/