Renault komu mjög sterkir til leiks í Ástralíu og virðast vera á góðum, hraðskreiðum bíl. Fisichella er með sjálfsöryggið í lagi og hefur ekki sparað stóru yfirlýsingarnar. Ég hef ekkert á móti því en það er nú bara búið eitt mót og alveg möguleiki á að ýmislegt eigi eftir að gerast.
Red Bull kom líka gífurlega á óvart og Coulthard hefur sjaldan keyrt svona vel. Ég vona bara að hann nái að halda þessum árangri áfram.
McLaren og Toyota ullu mér nokkrum vonbrigðum í Ástralíu. McLaren menn enduðu reyndar báðir í stigasæti en samt neðarlega. Tímatakan hafði reyndar sitt að segja og ég gæti alveg trúað því að þeir mæti fílelfdir til leiks í Malasíu. Trulli hélt uppi heiðri Toyota í tímatökunum en síðan lá leiðin niður á við. Einhvern veginn hef ég ekki alveg trú á að Toyota eigi eftir að standa sig í Malasíu.
Williams stóð sig svo sem þokkalega. Webber endaði í stigasæti en Heidfeld lenti í samstuði við Michael Schumacher og varð að hætta keppni. Ég get ekki sagt með nokkurri sannfæringu að þeir eigi eftir að standa sig vel í Malasíu, þar sem ég hef ekki mikla trú á þeim.
Sauber, BAR, Jordan og Minardi eru heldur ekki líkleg til afreka, þótt annað hvort BAR eða Sauber gætu náð upp í stigasæti. Ég held ég geti sagt með nokkuri vissu að Jordan og Minardi verða með þeim neðstu í Malasíu.
Síðast en ekki síst er það Ferrari. Ég hef komist að því að það er aldrei hægt að afskrifa þetta lið fyrr en ökumennirnir eru dottnir úr leik. Barrichello sýndi það með góðum akstri, að bíllinn er alveg samkeppnishæfur þótt þetta sé 2004-bíllinn, og Schumacher var kominn upp í 8. sæti þegar hann lenti í samstuði við Heidfeld. Ég gæti alveg trúað það verði tímatakan ekki eins sviptingamaikil og í Ástralíu, þá verði Ferrari með þeim efri.
Einnig held ég að fyrst núna fáum við að sjá hve endingargóðar vélarnar eru, þar sem þær eru orðnar slitnar eftir aksturinn í Ástralíu, alla vega hjá flestum, og einnig er spáð mun meiri hita heldur en var í Ástralíu.
Þannig að við bíðum bara öll spennt eftir því að keppnin hefjist aðfaranótt sunnudags.
Stupid men are often capable of things the clever would not dare to contemplate…