McLaren menn ekki ánægðir
Ronn Dennis gagnrýndi aksturslag Villeneuve eftir Kanada kappaksturinn og sagði að það hefði minnt sig helst á kamikaze sjálfsmorðsflugmann. Hann hélt McLaren bílunum lengi fyrir aftan sig og endaði á að keyra Ralf Schumacher út af brautinni. “Villeneuve ók eins og kamikaze flugmaður. Hann hafði engu að tapa og var þar að auki á heimavelli og var greinilega í krossferð.” Dennis sagði þetta strax eftir keppnina sem færði McLaren aðeins þrjú stig. “Í lokin keyrði hann sjálfan sig og Ralf út úr keppninni og því skiljanlegt að Hakkinen reyndi ekki að fara frammúr honum strax, hann kostaði okkur eina og hálfa sekúndu á hring.” Þegar bíll Villeneuve lenti á bíl Ralfs var það í beygju þar sem hann var að reyna að taka frammúr Coulthard, þegar bíll hans flaut upp í bleytunni. Eftir á viðurkenndi hann mistök sín. “Ég var að pressa og reyna að vinna mig upp um sæti og reyndi líklega of mikið.” Ralf hafði þetta um málið að segja: “Villeneuve bað mig strax afsökunar og því er málið úr sögunni fyrir mína parta.”