Þá eru sex keppnir búnar og hafa þær verið áhugaverðar vægast sagt.
Fyrst ber að nefna Michael Schumacher. Hann hefur unnið fimm af sex keppnum á árinu og haft töluverða yfirburði yfir andstæðinga sína. Því miður virðast fáir aðrir en Jenson Button eiga séns í hann. Schumacher hefur náð besta tíma í tímatökum og sigrað keppnirnar frekar örugglega. Ekki má gleyma þjónustumönnum hans sem hafa lyft grettistaki. Auk þess hefur bíllinn ekki bilað í hátt í 3 ár sem gerir það að verkum að Schumacher klárar svo til alltaf. En allt breyttist það í Mónakó. Trulli náði ráspól og sigraði enda varla hægt að tapa sæti í Mónakó. Schumacher var 4. en með 5. tímann en Ralf var dæmdur aftar á ráslínuna vegna vélaskipta. Schumacher náði sér ekki á strik í Mónakó og féll úr leik eftir undarlegt atvik þar sem hann virtist aka yfir e-ð brak eða e-ð. Hægði kappinn á sér og skildi lítið pláss eftir handa Montoya sem reyndi að þröngva sér fram hjá en ýtti við það Schumacher út í vegg með þeim afleiðingum að hann stórskemmdi bílinn og féll úr leik. Trulli vann að lokum en Jenson Button varð annar.
Næstan ber að nefna Rubens “Rubino” Barrichello. Hefur látið lítið fyrir sér fara en er sem stendur annar í stigakeppninni. Hefur þó ekki náð sama hraða og Schumacher í mótum ársins. Ágætis árangur engu að síður.
BAR-liðið er spútnik-lið ársins og hefur komið skemmtilega á óvart og sérstaklega Button. Hann er 3. í stigakeppninni og hefur átt gott tímabil. Sato hefur náð góðum hraða á köflum en verið nokkuð mistækur. BAR virðist eiga góða möguleika á að gera enn betri hluti í framtíðinni.
Renault hefur átt ágætistímabil en liðið lagði áherslu á að byggja upp stöðugleika og fara sér hægt í byrjun tímabils. Hefur það tekist ágætlega og er einn sigur kominn í hús á þeim bænum sem er annað en BAR, Williams og McLaren geta státað af. Alonso (minn maður) og Trulli hafa gert svipaða hluti og í fyrra en maður vildi sjá aðeins betri árangur. Ef ekki væri fyrir Ralf Schumacher hefði Renault unnið tvöfalt í Mónakó.
Williams hefur ekki gert eins vel og í fyrra, frekar döpur byrjun hjá þeim. Hef þó trú á að þeir komi sterkari inn þegar líða tekur á mótið.
McLaren á í stökustu vandræðum með bílinn og Kimi hefur aðeins klárað einu sinni. 1 stig hjá meistarakandídat McLaren eftir sex keppnir hlýtur að vera áhyggjuefni og maður fer að velta fyrir sér hvort það hafi yfir höfuð verið gáfulegt hjá Montoya að semja við McLaren. Coulthard er í álíka rugli og í fyrra, 10. sæti á ráslínu er frátekið fyrir hann. Hann mun örugglega yfirgefa liðið eftir mótið og halda á önnur mið, máski Toyota.
Toyota hefur staðið í stað frá í fyrra þrátt fyrir að hafa fengið einn besta hönnuðinn í bransanum. Maður hefði búist við meiru en það er ekki auðvelt þegar sex sterk lið berjast um átta stigasæti.
Botninn skipa svo Jordan, Sauber, Jaguar og Minardi. Sauber og Jaguar hafa sýnt ágætistakta, þá sérstaklega Massa og Webber en hinir mega sín lítils í baráttunni.
Þetta er fyrsta greinin mín og ég vona að fólk verði ekki alltof dómhart.
Með fyrirfram þökk, Paperkut.