Ég var að ræða við íþróttafréttamann hjá Sjónvarpinu og hann sagði mér að þeir væru að reyna að skoða alla möguleika til að koma keppninni í Magny Cours í loftið. Hann sagði mér líka að íþróttadeildinn reyndi hvað hún gæti til að gera öllum til hæfis varðandi útsendingar frá stórviðburðum í íþróttum, en með eina rás þá væri það oft erfitt að gera öllum til hæfis. Hann sagði mér líka að margir hringdu inn með dónaskap og helltu úr skálum reiði sinnar yfir íþróttafréttamennina, þegar dagskráin hefur ekki verið þeim að skapi. Ég verð að segja að mér ofbauð ýmislegt sem hann sagði mér að menn hefðu látið út úr sér. Við áhugamenn um Formúlu 1 skulum ekki taka þessa umræðu niður á það plan.
Ég er að reyna að vinna í því að sem flestir geti séð næstu keppni sem haldin verður í Frakklandi eftir hálfan mánuð og það er ljóst að það verður aðeins hægt með góðu samkomulagi við fjölmarga aðila. Það er því mín ósk að þeir sem taka þátt í þessari umræðu geri það með málefnalegum hætti.