Ég var að spjalla við þá hjá íþróttadeild RÚV vegna þess að sjónvarpið ætlar að sýna frá keppninni í Montreal í bútum. Þá kom í ljós að keppnin sem verður haldin 2 júlí verður ekki sýnd!!!
Ástæðan er sú að þá er kristnitökuhátíð á Þingvöllum og er ætlunin að sýna frá því. Því verðum við að fara upp á afturfæturnar og sýna hvað í okkur F1 aðdáendum á Íslandi býr.
Við látum ekki skemma fyrir okkur tvær keppnir í röð, mér sýnist á öllu að ákvörðun þeirra RÚV manna verði ekki hnikað með Montreal kappaksturinn…eða hvað?
Og svo kemur næsti skellur!
Ég er sjálfur að fara á ættarmót út á land þessa helgi og var búinn að segja að ég færi ekki ef það væri ekki sjónvarp á svæðinu. Þetta var einhverntíman í vetur og fólk skildi ekki hvað ég var að fara. Ég sagði því ættingjum mínum að ég missti aldrei af F1 sama hvar ég væri í veröldinni. Það þurfti því að hringja í staðarhaldara og athuga hvort ekki væri sjónvarp á svæðinu. Jú jú sjónvarp er til staðar og ég andaði léttar - búinn að skipuleggja þessa helgi marga mánuði fram í tímann. Þá kemur ákvörðun RÚV nokkrum dögum fyrir keppni og með þessum líka fáranlega hætti. Við erum mörg sem höfum áhuga á þessu sporti og látum þetta ekki viðgangast. Þetta er eitt af því fáa sem horfandi er á hjá RÚV (og það er líka alveg nóg að mínu mati). En þegar ekki er hægt að stóla betur á þennan miðil en þetta þá er spurning hvort maður verði að sækja á önnur mið…