fann þetta á heimasíðu Landhelgisgæslunnar
TF-SYN
Kom til landsins 1977.
Gerð: Tveggja hreyfla flugvél af tegundinni Fokker Friendship F-27-200.
Áhöfn: Tveir flugmenn og þrír stýrimenn, alls 5.
Farþegar: 40.
Hreyflar: 2stk. Rolls Royce. 2140 hestöfl hvor.
Hámarkshraði: 240 sjóm/klst. (432 km/klst).
Haghvæmur hraði: 185 sjóm/klst. (335 km/klst). Notast við eftirlitsflug.
Flughæð: Hámarks flughæð 25.000 fet. (8300 metrar).
Hámarks flugdrægi: 1900 sjóm. (3500 km).
Hámarks flugþol: 10:00 klst.
Stærð: Mesta lengd 23.6 metrar frá nefi að stéli.
Mesta breidd 29.0 metrar milli vængenda.
Mesta hæð 8.5 metrar (stél).
Gæsluflugvélin TF-SYN var sérstaklega byggð árið 1976 fyrir Landhelgisgæsluna af Fokker verksmiðjunum í Hollandi. Var hönnun hennar fyrir gæslu og björgunarstörf hér á landi byggð á áratuga reynslu Landhelgisgæslunar í þeim efnum svo og notkun gæsluvélarinnar TF-SYR, sem var af sömu gerð. TF-SYR var keypt árið 1972 frá Japan og seld Flugleiðum h/f árið 1980, þá 16 ára gömul.
TF-SYN er sérstaklega hönnuð til langflugs og því með auka eldsneytisgeyma, bæði undir og inni í vængjum. Hreyflar hennar hafa reynst mjög öruggir og mjög vel í lágflugi í saltmettuðu lofti yfir sjó, sem er afar þýðingarmikið fyrir úthafsgæsluvél. Afturhurð vélarinnar er þannig staðsett og hönnuð, að mjög auðvelt er að kasta út varningi. Bolur hennar er talinn vera mjög vel fallinn og að nokkru leiti hannaður til nauðlendingar á sjó. Loks er flugvélin háþekja og útsýni úr gluggum því mjög gott, t.d. við leit. Áhöfn í gæsluflugum er 5 menn en í leitar og björgunarflugum er áhöfnin 8-9 menn.
Auk venjulegs radíó- og öryggisbúnaðar fyrir farþegavél af þessari stærð, hefur flugvélin m.a. langdræg loftskeytatæki til fjarskipta við önnur loftför, skip eða stöðvar á landi. Hún hefur meiri radíóbúnað en gengur og gerist í almennum flugvélum, ljóskastara, blys til merkjagjafa og fleira, svo og betur búna björgunarbáta og hlífðarföt en almennt gerist í flugvélum. Hún er útbúin til sjúkraflutninga fyrir mismunandi tegundir af sjúkrabörum, hitakassa fyrir flutning á ófullburða börnum, súrefnistæki og fleira. Í flugvélinni er hreinlætisaðstaða, matargeymsla, matborð með sætum o.fl.