Þetta fer allt eftir því hvað þú ætlar þér í fluginu. Ef þú ert einkaflugmaður og ert að leita að fjölbreyttum flugvélum til að fljúga þegar þig langar til og ert jafnvel í leit að auknum réttindum (t.a.m. IR), er Geirfugl tvímælalaust rétti klúbburinn fyrir þig.
Ef þú ætlar hins vegar í atvinnuflugmann og vantar vélar til tímasöfnunar er Geirfugl ekki rétti klúbburinn. Í Geirfugli er 60 tíma kvóti á ári (meira en nóg fyrir flesta einkaflugmenn), en ef þú flýgur meira en kvótanum nemur, hækkar tímaverðið eftir að 60 tímunum er náð og þrengt er að bókunarmöguleikum þínum. Ef þú ert í tímasöfnunarhugleiðingum myndi ég mæla með Lágflugi. Þar er markhópurinn tímasafnarar og engin tímamörk á ári.
Síðan eru aðrir klúbbar, eins og Flugklúbbur Íslands (sem er lítið annað en stæling af Geirfugli) og flugklúbbur Flugskóla Íslands. Það sem aðgreinir þessa klúbba frá hinum fyrri er að stofngjaldið sem þú greiðir veitir ekki eignarrétt í klúbbnum, heldur er það aðildargjald. Þannig er alls ekki tryggt að þú hafir lögvarin réttindi hvað stjórn og stefnu klúbbsins varðar, líkt og gildir um hina tvo, þar sem þú gerist hluthafi við inngöngu og nýtur réttinda sem slíkur.
Smærri klúbbum, þar sem nokkrir einstaklingar sameinast um eina vél, fer óðum fækkandi. Áhættan sem felst í aðild að slíkum klúbbi er mun meiri en í þeim stærri, t.a.m. vegna tryggingamála. Oft á tíðum gefast þessir klúbbar upp ef óhapp á sér stað og stór viðgerð bíður flugvélarinnar.
Ég þori ekki að fullyrða með Lágflug og Flugklúbb Íslands, en Geirfugl tryggir sínar vélar vel og hluthafar hafa ekki borið kostnað af tjónum sem aðrir félagsmenn valda. Hluthafi sem skemmir vél getur þó átt á hættu að verða krafinn um sjálfsábyrgð tryggingarinnar sé skemmdin tilkomin vegna gáleysis hans í meðferð flugvélarinnar.
Ég vona þetta gefi þér einhverjar hugmyndir um hvert þú vilt stefna, en auðvitað er best að kynna sér málin sjálfur hjá klúbbunum og velja síðan þann sem þér lýst best á.