aero145
Farðu varlega í að draga svona ályktanir því þessi braut er í töluverðri hæð yfir sjó og líklegt að hún sé ekki gerð úr frostfríu efni. Þó Dornier sé lent á SAK, sem ég geri ráð fyrir að sé Sauðárkrókur, þá er ekki eins víst og mjög ólíklegt að þessi braut sé jafngóð þrátt fyrir olíumölina. Völlurinn á króknum er alþjóðaflugvöllur og heitir Alexander International, eins fallega og það hljómar.
Það hefur sjaldan verið vandamál að fá leyfi til að lenda á brautum sem Landsvirkjun á og þarf ekki annað en að hringja í LV og spyrja. Ágætisfólk sem gott er að tala við.
Athugaðu samt áður en þú ferð hvort vélin þín sé tryggð fyrir utanvallalendingar því lending á þessari braut er jafngildir lendingu hvort sem er á túni eða mel. Svo getur vel verið að ef þú leigir vél af öðrum eins og Flugskóla Íslands að sá leyfi hreinlega ekki lendingar utan skráðra flugvalla og flugbrauta.
Smá skot á þig minn kæri ef þú ert flugmaður (þú segir ekki hvort þú hafir sjálfur verið að fljúga þarna). Ef þú ert ekki viss um hvort þessi braut sé nálægt sjó eða á þá held ég að þú ættir að lappa aðeins upp á landafræðikunnáttuna. Ísland er mjög lítið land og því ættu flugmenn ekki að þurfa að velkjast í vafa um hvort þeir fljúgi yfir sjó, ám eða vötnum. Þessi flugbraut er við Blöndulón og sést ágætlega ef súmmað er út á kortinu sem hér er vísað á hjá geirfugl.is
Flugbrautin sem þú ert að spyrja um, ef sögukunnáttan svíkur mig ekki, var á sínum tíma gerð í þeim tilgangi að frá henni var flogið á vélum Landgræðslunnar á vegum Landsvirkjunar í uppgræðsluverkefnum í kjölfar land og jarðrasks vegna gerðar Blönduvirkjunar. Út frá því er hægt að áætla að einungis hafi verið flogið þaðan að sumri til og því ekki gert sérstaklega ráð fyrir að brautin væri notuð á öðrum tímum. Það gefur mér ástæðu til að halda að hún sé ekki gerð úr frostfríu efni og getur því verið varhugavert að nota hana þegar frost er að að fara úr jörðu. Þó hún sé inni hálendinu er vel mögulegt í umhleypingatíð eins og undanfarið sé brautin mjög gljúp og hættulegt að lenda þar flugvélum.
Smá málfræði í lokin en grús er annað orð yfir möl. Malargrús er gryfja þar sem möl er numin, öðru nafni malarnáma.
Venjulega er hörpuð möl (mulið grjót) notuð í svokallað bundið slitlag, stundum kallað olíumöl, og það er ekki annað en hörpuð möl lögð ofan á eitthvert undirlag, sem stundum er ekki merkilegt m.t.t. burðarþols og eiginleika í frosti.
Fyrst er heitri tjörunni sprautað ofan á undirlagið og svo mölinni dreift yfir. Svo er þetta valtað niður og þá er allt klárt til notkunar.
Gleðileg jól og gangi þér vel
Helico