Erlent | mbl.is | 30.8.2006 | 20:00
Flugmaðurinn læstur úti

Það óvenjulega atvik varð um borð í flugvél Air Canada Jazz flugfélagsins um síðustu helgi að flugstjóri vélarinnar komst ekki aftur inn í flugstjórnarklefann eftir að hafa farið aftur í farþegarýmið til að nota salernið. Atvikið varð einungis hálftíma fyrir lendingu og mun farþegum hafa brugðið nokkuð við að sjá flugstjórann reyna árangurslaust að komast inn í klefann.

Flugstjóranum tókst þó með aðstoð annarra áhafnarmeðlima að losa hurðina af hjörunum og komast inn í klefann og lenda vélinni. Talsmaður flugfélagsins segir að ekki hafi skapast hættuástand, vegna þessa, þar sem aðstoðarflugmaðurinn hafi verið fullfær um að lenda vélinni. „Við höfum rannsakað atvikið sem varð á laugardag og komist að því að öll áhöfn vélarinnar fylgdi starfsreglum. Öryggi farþega var aldrei ógnað,” segir hann. „Það er mjög sjaldgæft að slíkt gerist.” Ekki hefur verið greint frá því hvað olli því að ekki var hægt að opna hurðina.

Um 50 farþegar voru í vélinni, sem var af gerðinni Bombardier CRJ-100, og á leið frá Ottawa til Winnipeg.