Eftirfarandi er fengið af heimasíðu
Flugskóla Helga Jónssonar og segir allt held ég.
Einkaflugmannsnámi er skipt í tvo áfanga. Þeim fyrri líkur með svokölluðu sólóprófi (flugnemaprófi) og þeim síðari með einkaflugmannsprófinu sjálfu. Hvor áfanginn fyrir sig er byggður upp á ákveðinn hátt til þess að nemandinn öðlist þá færni nauðsynlega til þess að geta stjórnaðu flugvélinni á öruggan og hagkvæman hátt. Meðfram verklega náminu þarf nemandinn að sitja bóklegt einkaflugmannsnámskeið. Einkaflugmannsnámið er nauðsynlegur undanfari atvinnuflugmannsnáms.
Meðal nemandi fer í fyrsta sólóflugið sitt eftir 18 flugtíma (+/-), sem vanalega eru flognir á Cessnu 152. Á þessu stigi námsins er nemandinn að læra grundvallar atriði flugs, sem hann mun svo byggja allt sitt nám á. Þessum hluta námsins lýkur með því að nemandinn flýgur einn síns liðs og tekur 3 flugtök og 3 lendingar.
Lágmarks tímafjöldi fyrir einkaflugmannspróf er 45 flugtímar (tímarnir fyrir sólóflugið eru taldir með) en vanalega ljúka nemendur náminu eftir 55 til 60 flugtíma (FHJ krefst 55 flugtíma af sínum nemendum). Engin er skrifaður út í próf nema hann hafi náð tilskilinni færni og fer því fjöldi flugtíma eftir áhuga, ástundun, undirbúningi og getu viðkomandi nemanda. Frekari upplýsingar um verklegt einkaflugmannsnám má fá hér.
Bóklega einkaflugmannsnámskeiðið er 125 kennslustundir. Frekari upplýsingar um bóklegt einkaflugmannsnámskeið má fá hér.
Fljótlega eftir að flugnámið er hafið verða nemendur að fara í heilbrigðisskoðun hjá Fluglækningastofnuninni. Hægt er að fara í tvær tegundir af heilbrigðisskoðunum: annar flokkur, sem er fyrir einkaflugmenn, og fyrsti flokkur, sem er fyrir atvinnuflugmenn. Fullgild annars flokks skoðun verður að liggja fyrir fyrsta sólóflugið. Mikill verðmunur er á skoðununum. Frekari upplýsingar má fá hjá Fluglækningastofnuninni (sími 551-6900).
Nemandi sem lokið hefur einkaflugmannsnámi hefur réttindi til að fljúga einshreyfils flugvélum í sjónflugi, sem eru allt að 5.700 kg. að þyngd, með þann fjölda farþega sem þær bera, án endurgjalds. Einkaflugmannsskírteinið er gefið út með flokksárituninni Einshreyfilsvélar bulluhreyfill land (SEP). Til frekari upplýsinga bendir Flugskólinn á JAR-FCL 1, kafla C.
Nauðsynlegur undanfari atvinnuflugmannsprófs er einkaflugmannspróf. Til viðbótar við atvinnuflugmannsprófið sjálft þarf viðkomandi nemandi að taka tvær áritanir; blindflugsáritun og fjölhreyflaáritun með blindflugsréttindum.
Eins og með einkaflugmannsnám skiptist atvinnuflugmannsnám í bóklegt og verklegt nám. Lágmarks tímafjöldi til próftöku eru 200 flugtímar. Verklegt atvinnuflugmannsnám er að lágmarki 81 flugtími í kennslu. Sjá nánar um verklegt atvinnuflugmannsnám.
Til verklegs náms notar Flugskólinn m.a. nýjan Alsim flughermi FNPT II. Flughermirinn er eign ríkisins og hafa allir flugskólar jafnan og frjálsan aðgang að honum.
Bóklega námið tekur tæpt ár í fullu námi og lýkur með prófum hjá Flugmálastjórn Íslands. Eins og er kennir Flugskóli Íslands til bóklegs atvinnuflugmannspróf, en Flugskóli Helga Jónssonar er að vinna að því að setja upp bóklegt atvinnuflugmannsnámskeið (ATPL). Einnig má benda væntanlegum atvinnuflugmannsnemum á þann möguleika að taka bóklega námið erlendis. Viðkomandi verður þá að sækja sitt nám í JAR landi, en að því loknu sækir hann um heimild hjá FMS til að ljúka námi sínu hjá Flugskólanum. Sjá nánar um bóklegt atvinnuflugmannsnám.
Góður flugmaður þarf að sýna færni, vera agaður í vinnubrögðum og hafa góða samstarfseiginleika. Hann þarf að vera víðsýnn til þess að vera hæfur til starfa í því alþjóðlega umhverfi sem flugið fer fram í. Fyrir þá sem standa sig vel bíður spennandi starf.
Nemandi sem hefur lokið atvinnuflugmannsnámi hefur réttindi til þess að starfa sem flugstjóri í loftförum ætluð einum flugmanni, en sem aðstoðarflugmaður í loftförum fyrir tvo flugmenn. Atvinnuflugmaður hefur rétt til þess að taka greiðslur fyrir sína vinnu. Atvinnuflugmannsskírteinið (CPL) er gefið út með blindflugsáritun (IR) og fjölhreyflaáritun (MEL/IR) með blindflugsréttindum. Til frekari upplýsinga bendir Flugskólinn á JAR-FCL 1, kafla D, E og F.
Flugskóli Helga Jónssonar er JAR skóli, samþykkur samkvæmt ströngum stöðlum samtaka flugmálastjórna í Evrópu. Flugskólinn er eini einkarekni flugskólinn á Íslandi sem kennir til atvinnuflugmannsprófs.