Vorið 1919 kom Rolf Zimsen, flugmaður og frændi borgarstjórnans Knud Zimsens, til landsins til að kanna aðstæður fyrir samgöngur í lofti á Íslandi. Honum leizt bezt á Vatnsmýrina sem flugvallarstæði og bæjarstjórnin lagði til 92.300 m² af svonefndu Briemstúni. Samtímis var hið fyrsta af fjórum fyrirtækjum, sem hlutu nafnið „Flugfélag Íslands”, stofnað og fyrsta flugvélin kom til landsins í stórum kassa. Hann var fluttur að skýlinu, sem hafði verið reist í Vatnsmýrinni, og hinn 3. september flaug hún fyrst. Flugmaðurinn, sem flaug fyrstu þrjár vikurnar, var Cecil Faber. Fyrsta flugsýningin var haldin daginn eftir og mönnum gafst kostur á 5 mínútna flugferð fyrir 25 krónur.
Næsta ár tók vesturíslenzkur flugmaður, Frank Fredrickson, við starfinu. Fyrsta slys tengt flugi á landinu varð 27. júlí 1920, þegar hætt var við flugtak og vélin lenti á tveimur börnum, 10 ára stúlku, sem lézt, og bróður hennar fjögurra ára, sem slasaðist mikið. Rekstur vélarinnar gekk ekki og hún var seld úr landi árið eftir. Árið 1928 var nýtt félag stofnað (Alexander Jóhannesson). Það starfaði til 1931 en heimskreppan og fleiri áföll urðu því að falli. Næstu tvö árin notuðu hollenzkir veðurathugunarmenn völlinn, sem hafði verið sléttaður og lagaður töluvert. Skýlið og fleiri mannvirki voru seld, þegar þeir fóru, því að mikill skortur var á alls konar efniviði.
Agnar Kofoed-Hansen flaug fyrstu svifflugunni með góðum árangri af vellinum snemma árs 1937, en í þriðju tilraun brotlenti hún án þess að flugmaðurinn fengi miklar skrokkskjóður. Sama ár var Flugfélag Akureyrar stofnað og nafninu breytt í Flugfélag Íslands árið 1940. Það lét byggja skýli við Shellvík við Skerjafjörð 1938, þar sem var um tíma aðstaða fyrir sjóflugvélar. Loftleiðir voru stofnaðar árið 1944. Þrátt fyrir umbætur í Vatnsmýrinni um og eftir 1937, var svæðið stundum allt of blautt til að hefja flug með fullfermi. Því var oft tómaflug upp á Korpúlfsstaðatún, þaðan sem flogið var með fullfermi.
Agnar Kofoed-Hansen barðist fyrir hönd Flugmálafélags Íslands fyrir gerð varanlegs flugvallar í Vatnsmýrinni og Gústaf E. Pálsson, verkfræðingur, teiknaði hann 1937. Ekkert gerðist fyrr en Bretar komu og hófu framkvæmdir eftir eigin skipulagi árið 1940. Tækjabúnaður þeirra til framkvæmdanna var mjög takmarkaður og frumstæður, þannig að ekki var skipt um jarðveg undir flugbrautunum. Þetta kostaði miklar lagfæringar síðar (sjá Rauðhóla), einkum á árunum 1999-2001. Íslendingar fengu síðan full yfirráð yfir flugvellinum í lok stríðsins.
Nýr flugturn var reistur á árunum 1958-60. Loftleiðabyggingin var reist á árunum 1962-64. Völlurinn hefur verið miðstöð innanlandsflugs frá stíðslokum og Loftleiðir gerðu þaðan út til 1962, en þá brunnu flestar eigur félagsins á vellinum. Þá var farið að nota Keflavíkurflugvöll til millilandaflugs og Flugfélag Íslands gerði það einnig að mestu, þegar það fékk boing 727 þotuna árið 1967. Flugmálastjórn hefur starfað á Reykjavíkurflugvelli frá 1960, fyrst í bragga við rætur Öskjuhlíðar en í nýja turninum frá 1960. Embætti flugmálaráðunautar ríkisins var stofnað 1936 og Agnar Kofoed-Hansen gegndi því embætti, þar til hann varð flugmálastjóri.
Veðurstofa Íslands hafði lengi aðsetur á vellinum. Árið 1950 flutti hún að hluta í gamla flugturninn úr Sjómannaskólanum en árið 1952 flutti aðalflugveðurþjónustan til Keflavíkur. Hluti þeirrar starfsemi hélt þó áfram í nýja flugturninum eftir 1962. Núverandi húsnæði Veðurstofunnar við Bústaðaveg var tekið í notkun árið 1973. Landhelgisgæzlan hefur aðalstöðvar flugdeildar sinnar á Reykjavíkurflugvelli.
Reykjavíkurflugvöllur hefur lengi verið umdeildur. Nálægð hans við þéttbýli borgarinnar og skerðing möguleika til byggingar íbúðahverfa í Vatnsmýrinni hefur verið þyrnir í augum margra og margar tillögur um flutning hans hafa litið dagsins ljós. Margir hafa stungið upp á flutningi innanlandsflugs til Keflavíkur, byggingu nýs flugvallar í Hvassahrauni eða á uppfyllingu milli skerja í Skerjafirði, þar sem gæti jafnvel risið millilandaflugvöllur. Hvað sem öllum þessum deilum líður, verður flugvöllurinn á þessum stað til árisins 2016, hvað sem síðar verður.
Langaði til þess að deila þessu með ykkur. Ég skrifaði þetta ekki en ég tók þetta af síðunni http://nat.is en ákkúrat slóðin á þessa grein er http://www.nat.is/travelguide/ahugav_st_reykjavikurflugvollur.htm
Kveðja Frikki
kv.Frikki