Erlent | 23.7.2004 | 13:42
Reknir úr starfi fyrir að sitja á salerni flugvélar í flugtaki
Tveir starfsmenn írska flugfélagsins Ryanair voru reknir úr starfi í dag fyrir að sitja í salernum flugvélar þar sem ekki voru önnur sæti fyrir þá í flugvélinni. Flugstjóri hjá félaginu sagði einnig upp störfum en hann viðurkenndi að hafa leyft starfsmönnunum tveimur, sem ekki voru á vakt, að sitja á salernunum í flugtaki og lendingu.
Flugvélin var að fara frá borginni Girona á Spáni til Dyflinnar á sunnudagskvöld. Í yfirlýsingu frá Ryanair segir, að flugstjórinn hafi 30 ára reynslu sem flugmaður, en starfsmennirnir, sem reknir voru, hafi báðir verið í hópi yfirmanna hjá flugfélaginu og því þekkt vel þær reglur sem gildi um borð í flugvélum. Fram kemur að starfsmennirnir hafi neitað að segja upp og því hafi þeir verið reknir úr starfi fyrir ósæmilega hegðun.
Írska flugmálastjórnin er enn að rannsaka málið.