frétt á mbl.is
Flugmálastjórn fær flugskóla ekki borinn út á Reykjavíkurflugvelli
Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í dag kröf Flugmálastjórnar Íslands um að Helgi Jónsson og Flugskóla Helga Jónssonar yrðu bornir út úr flugskýli nr. 7 á Reykjavíkurflugvelli auk verkstæðisrýmis í viðbyggingu þess og stofnuninni fengin umráð eignarinnar.
Í úrskurði héraðsdóms segir að gerðarþoli hafi haft óslitin umráð yfir flugskýlinu og verkstæðisrými í mörg ár án þess að greiða húsaleigu - nema fyrir tvo mánuði á árinu 1996. Þá lægi fyrir að hann greiddi ekki leigu á árum áður, enda þótt hann hefði þá árum saman haft afnot af húsnæðinu með vitund og vilja Flugmálastjórnar.
Stofnunin hafi ekki nýtt sér rétt sinn til að segja upp leigusamningi aðila í samræmi við lög heldur farið þá leið að lýsa riftun leigusamnings á grundvelli þess að umdeild leigugreiðsla hafi ekki verið innt af hendi. Naumast yrði talið að flugskólinn hafi ótvírætt viðurkennt skyldu til að greiða húsaleigu með því að greiða leigu fyrir tvo mánuði á árinu 1996.
Samkvæmt þessu öllu yrði því ekki talið að Flugmálastjórn ætti ótvíræðan og skýlausan rétt til að fá kröfu sinni framfylgt með beinni aðfarargerð. Var stofnunin dæmd til að borga Helga Jónssyni og Flugskóla Helga Jónssonar ehf., óskipt samtals 50.000 kr. í málskostnað.