Sent til fróðleiks.

Svifflugmenn norðurlandanna héldu sinn árlega fund, Nordic Gliding Meeting, hér á Íslandi um síðustu helgi í boði Svifflugfélags Íslands. Þetta er í 31 skipti sem norrænir svifflugmenn funda en svifflugið er eina flugíþróttin, fyrir utan Flugmálafélagið, þar sem menn funda til skiptis árlega á norðurlöndunum. Fundurinn var haldinn á Hótel Viking sem er partur af Fjörukránni í Hafnarfirði. Um 20 fulltrúar frá öllum norðurlöndunum sóttu fundinn.
Á föstudegi fyrir fundinn bauð Svifflugfélagið öllum erlendu gestunum að fljúga á Sandskeiði og fengu allir flug í nokkuð blautu veðri.
Þvínæst var flugskýli Argríms Jóhannssonar í Atlanta skoðað og sýndi hann sjálfur m.a. listflug. Að því loknu var skoðuð alþjóða Flugstjórnarmiðstöðin á Reykjavíkurflugvelli í boði Flugmálastjóra.
Helstu mál fundarins voru: mótahald, yfirvofandi reglugerðir Evrópusambandsins, skírteinamál, námskeiðahald, öryggismál, viðhaldsmál, kennslumál og norræni svifflugdagurinn.
Fundurinn tókst í alla staði mjög vel og voru norrænu gestirnir ánægðir með sérstæðan og skemmtilegan fundarstað.
Þessir fundir eru mjög gagnlegir fyrir íslenskt svifflug en þarna fáum við þær upplýsingar og fróðleik auk nauðsinlegra tengsla sem við þörfnumst í okkar annars einangraða landi.