Það er auðvitað löngu orðið tímabært að setja upp FAQ hérna. Hérna kemur mín útgáfa af svörum, auðvitað eru menn svo ekki sammála.
Það er ekki erfitt að fá einkaflugmannsprófið, en svolítil vinna. Þú þarft ca. 3 mánaða bóklegt námskeið sem er yfirleitt öll kvöld á virkum dögum. síðan þarftu að taka verklega flugtíma, lágmarkið eru 45 tímar, en flestir þurfa nær 60 tímum. Þessi pakki kostar ca. 500-700.000.
Það tekur yfirleitt frá 6-12 mánuðum að taka einkaflugmannsprófið, bóklega og verklega hlutann.
Það er mjög dýrt að eiga flugvél einn, enda fer þeim fækkandi sem gera það. Það eru nokkrir aðrir kostir í stöðunni.
a) Leigja vél af flugskóla fyrir hvert flug. Hver flugtími er dýr, en þú þarft engar áhyggjur að hafa af fastakostnaði, viðhaldi eða óvæntum útgjöldum.
b) Kaupa hlut í flugvél. Það var korkur í gangi fyrir stuttu um hvaða vélar væru til sölu. Það er einhver fjárfesting fyrst, og svo er alltaf einhver fastakostnaður við skýlisleigu og tryggingar. Flugtíminn er yfirleitt frekar ódýr, en annar kostnaður getur verið hár. Það er mjög mikilvægt að góð sátt sé milli manna og félagið sé vel rekið.
c) Kaupa hlut í Geirfugli, eða samskonar klúbbum. Þar er flugtíminn frekar ódýr, en alltaf þarf að borga fastagjald.
Meðal maður getur auðveldlega haft efni á einkaflugi ef hann hefur áhuga á því. Miðað við að kaupa hlut í Geirfugli og fljúga 24 tíma á ári er hægt að sleppa með milljón út fyrir allt námið og hlutinn og 15 þúsund á mánuði í fastagjald og flugtíma. Það er u.þ.b. sami kostnaður og að kaupa bíl upp á 1.700 þúsund (ódýr Corolla eða dýr Yaris), borga milljón út og taka 700 þúsund á bílaláni.
Þannig er það nú.
Kristbjörn