Jæja, hér kemur svar mitt:
Nr. 1: Það er alveg satt að aðstæður geta breyst, og alltaf má taka kjarasamninga upp. Hins vegar eru kjarasamningar alveg eins og aðrir samningar milli tvegga aðila, og eru bindandi fyrir báða. Í þessu tilviki er um að ræða að annar aðilinn (hér FÍA) hefur samið um að leysa ákveðna vinnu af hendi við ákveðnar aðstæður. Hinn aðilinn (hér Flugleiðir) hafa samþykkt að greiða fyrir þessa vinnu ákveðna upphæð. Inní þetta fléttast ýmislegt annað t.d útreikningar á áhafnaþörf og þá hversu marga þarf að hafa á varavakt vegna forfalla. Þessi tala varamanna er skilgreind í umræddum kjarasamningi. Ef ekki er hægt að uppfylla þessi skilyrði samningsins er um undirmönnun að ræða og þar með brot á kjarasamningi.
Þar sem um gagnkvæman samning er að ræða getur annar aðilinn EKKI breytt þessum samningi einhliða, heldur þurfa báðir aðiliar að samþykkja breytinguna.
Nr. 2: Þar sem Flugleiðir fóru ekki eftir mönnun varavakta í samningum hljóta þeir að hafa brotið hann (þar sem þeir geta ekki einhliða ákveðið breytingu); þess vegna er hægt að nota orðið “ólíðandi” því það er ekki líðandi að menn stundi það að brjóta gerða samninga. Með því eru þeir þá að “svína” á þeim mönnum sem eru að uppfylla sinn hluta kjarasamningsins, án þess að uppfylla sinn hluta sjálfir.
Varðandi það að axli aukna ábyrgð þegar skóinn kreppir: Það er eflaust sjálfsagt að reyna að hjálpa til. Hins vegar veit ég ekki hvort fyrirtækið geti krafist þess að menn geri eitthvað meira þegar illa árar, því ekki komast menn upp með að gera minna þegar vel árar. Flugmenn eru ekki bara að taka, eins og þú segir, því við erum líka að gefa. Menn gefa með vinnu og það sem menn taka til baka eru laun. Hvað fleira á að gera?
Nr. 3: Þar erum við sammála.
Nr. 4: Ég hef aldrei verið að segja að Flugleiðir ættu að hafa fleiri menn í vinnu en þarf. Ég er hins vegar að segja að það eigi ekki að hafa færri menn í vinnu en útreiknuð áhafnaþörf segir til um, sem hér virðist hafa gerst, enda voru sex menn endurráðnir. Varðandi ramma laganna; hér held ég að þú sért að vitna í Q-kafla JARsins sem hér eru landslög. Rétt er það að það má ekki fara útfyrir þau mörk sem lögin setja, en það er ekki málið hér. Málið hér snýst um að halda gerða samninga við flugmenn. Slíka samninga á ekki bara að halda þegar vel gengur, því þá er það orðin geðþáttarákvörðun um hvenær ber að halda gerða samninga. Þá ber að halda alltaf.
Nr. 5: Ég veit ekki alveg hvað þú ert að fara hér. FÍA hefur gert ýmislegt til að hjálpa Flugleiðum, m.a. að endurskoða ekki dagpeningagreiðslur, segja ekki upp samningum þó það hefði verið hægt, veita undanþágur frá samningum vegna leiguverkefna og fleira. Svo veit ég ekki betur en að Flugleiðir hafi skilað methagnaði af þessari sumarvertíð svo ég veit ekki alveg hvað hag þarf að rétta við. Einnig er það ekki í verkahring stéttarfélags að reka fyrirtæki; stjórnendur þess hljót að vera þess fullfærir án aðstoðar.
Nr. 6: Hagur fyrirtækis á EKKI ALLTAF að vera forgangsatriði. Það gengur eingöngu þegar hagur fyrirtækisins og starfsfólks fer saman, annar fæst enginn til að vina fyrir viðkomandi fyrirtæki.
Varðandi niðurlag þitt: Það er þín skoðun að Flugleiðir hafi verið sanngjarnir við flugmenn, en það er alls ekki skoðun allra. Sumir segja að EKKERT hafi fengist frá Flugleiðum nema í gegnum blóð, svita og tár. Sjálfur held ég að sannleikurinn sé einhverstaðar þar á milli.
Varðandi Atlanta, þá finnst mér þeirra starfsmannastefna ekki til fyrirmyndar, enda eru þeirra flugmenn fæstir starfsmenn fyrirtækisins. Annars vil ég ekki tjá mig of mikið um þá, þar sem ég þekki ekki nógu vel til mála.
<br><br>Kveðja
Fresca